Af hverju ekki?

Af hverju er ekki þriðja kvikmyndahúsið á Akureyri? Eins og tvö sé ekki nóg. Jú kannski þar sem nýjustu myndirnar eru sýndar. En hvað með að grafa upp gamlar gersemar úr kvikmyndaheiminum? Sko…sumt af því sem er gamalt er ekki kúl, inni, vinsælt o.s.frv. Til dæmis gamlar borðtölvur með floppy-drifi. Þær eru ekki líklegar til að slá í gegn á markaðnum ef einhverjum skyldi detta í hug að koma þeim aftur í sölu. Annað heldur sínu striki þrátt fyrir ellikerlingu. Dæmi um þetta eru klassískar bíómyndir. Myndir sem hreyfa við fólki kynslóð eftir kynslóð. Myndir sem vekja upp hlýjar minningar frá bernskuárum eða úr tilhugalífinu og kveikja jafnvel í gömlum glæðum. Vissulega er margt gott í boði í bíóhúsunum en það er líka margt ekki eins gott. Fólk sem komið er af léttasta skeiði ákveður ekkert sisvona að drífa sig í bíó án þess að vita hvað er á boðstólnum. Við verðum kröfuharðari eftir því sem árin líða og við erum einfaldlega ekki „að kaupa“ fólk eins og Miley Cyrus og Chris Brown (step up o.fl.). Með fullri virðingu og allt það. Er ekki markaður fyrir lítið og notalegt kvikmyndahús í bænum þar sem stemningin er heimilisleg, myndirnar gamlar og miðaverðið kannski eftir því. Íburðurinn þarf ekki að vera í hámarki þegar manni langar bara að setjast niður í rólegheitum með popp og Coke og gleyma sér með Tom Cruise og Kelly McGillis í háloftunum. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd