Leitin að grenndargralinu 2012 er hafin!

Þetta er í fimmta skipti sem nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum á Akureyri hefja leit að hinu eftirsóknaverða grali. Hugmyndin að verkefninu fæddist í Giljaskóla sumarið 2008 og um haustið hófu nemendur skólans leit að Grenndargralinu í fyrsta skipti. Árið 2009 tók Síðuskóli þátt og Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010. Síðastliðið haust bættust þrír skólar við þegar Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli tilkynntu þátttöku sína. Nú þegar Leitin er um það bil að hefjast hafa fimm skólar tilkynnt um þátttöku sína. Einn af þeim er Naustaskóli en hann er að taka þátt í fyrsta skipi. Við bjóðum Naustaskóla velkominn til leiks.
Verkefnin sem þátttakendur kljást við tengjast sögu heimabyggðar. Þannig er reynt að auka áhuga og vitund þátttakenda á nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Þrautirnar tíu munu birtast á heimasíðu Leitarinnar www.grenndargral.is á föstudögum auk þess sem fréttir og tilkynningar munu birtast á facebook-síðu Leitarinnar. Öll vinna nemenda fer fram utan skólatíma og því er um frjálsa þátttöku að ræða. Umsjón með Leitinni hafa kennarar í þátttökuskólunum.
Framundan eru 10 vikur fullar af spennandi viðfangsefnum og ljóst að keppnin harðnar með hverju árinu. Við viljum hvetja foreldra og aðra sem koma að uppeldi þeirra sem taka þátt í Leitinni til að aðstoða þau við úrvinnslu þrautanna. Leitin er góður vettvangur fyrir fjölskylduna að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Umsjónarmenn Leitarinnar að Grenndargralinu 2012.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd