Leitin að grenndargralinu komin með logo

Umsvif Leitarinnar að grenndargralinu eru orðin umtalsverð. Auk hinnar árlegu leitar grunnskólanema að sjálfu grenndargralinu má nefna nokkur spennandi hliðarverkefni árið 2012.

Fyrst ber að nefna alþjóðlega ráðstefnu bókasafnskennara á Írlandi í mars sl. sem hópur Íslendinga sótti. Þar var Leitin að grenndargralinu kynnt lítillega en Ingunn Vigdís Sigmarsdóttir bókasafnskennari í Giljaskóla sá um kynninguna. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðu Leitarinnar tekur Grenndargralið þátt í afmæli bæjarins í ágúst með sérstakri afmælisútgáfu af Leitinni að grenndagralinu. Þá hefur Grenndargralið unnið síðustu mánuði að gerð þrívíddarmyndar sem sýnir Akureyri eins og bærinn leit út þann 29. ágúst árið 1862. Meira um það síðar.


Leitin að grenndargralinu er fjögurra ára gömul í sumar. Í tilefni afmælisins þótti við hæfi að klæða gralið í sparibúninginn og til þess var fenginn hæfasti stílistinn í bransanum. Herdís Björk Þórðardóttir tók að sér að hanna auðkenni (logo) fyrir Grenndargralið og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. Herdís hefur útbúið nokkrar útgáfur sem nota má við hin ýmsu tækifæri og má nefna sérstaka útgáfu fyrir Grenndargral fjölskyldunnar í ágúst.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd