Grenndargral fjölskyldunnar á afmælisári Akureyrar
Í ágúst nk. verður boðið upp á fjölskylduútgáfu af Leitinni að grenndargralinu. Þrjár þrautir verða lagðar til grundvallar á jafnmörgum vikum og munu þær sem fyrr tengjast sögu og menningu Akureyrar. Þeir sem skila inn réttum úrlausnum fyrir tiltekinn tíma, öðlast rétt til að glíma við lokaþrautina sem vísar á gralið.
Allir geta tekið þátt, jafnt ungir sem aldnir. Engin takmörk eru fyrir því hversu margir skipa þátttökuliðin og þannig geta fjölskyldur eða vinahópar tekið sig saman og myndað lið.
Takmark þátttakenda er að finna Grenndargral fjölskyldunnar sem búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Um er að ræða sérstaka afmælisútgáfu af Grenndargralinu. Gripurinn sem barist verður um á rætur sínar að rekja til Randers, vinabæjar Akureyrar í Danmörku.
Sigurvegurunum verður afhent gralið til eignar að leit lokinni. Öll lið sem klára þrautirnar þrjár fá viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.