Karamellukrukkan er fundin!
Langri og strangri leit að karamellukrukkunni er lokið. Það var hann Sindri Unnsteinsson í 8. bekk í Glerárskóla sem fann krukkuna.
Mánudagurinn 10. október hefur án efa reynt á margan leitandann. Hópur duglegra krakka lagði af stað í leit að krukku klukkan 15:15 eflaust í þeirri von að leitin yrði stutt og átakalítil. Annað átti eftir að koma á daginn. Vopnuð vísu hélt hópurinn á vit ævintýranna og sumir með aðstoðarmenn með sér. Komið var við á hinum og þessum stöðum í bænum en án árangurs. Alls staðar gripu krakkarnir í tómt. Myrkur skall á og nokkrar klukkustundir að baki við leit en krukkan enn í felum. Þar með var orðið ljóst að karamellukrukkan yrði á sínum stað yfir nótt og það í fyrsta skipti í fjögurra ára sögu Leitarinnar. Gefin var út tilkynning um frekari vísbendingar daginn eftir.
Þriðjudaginn 11. október mættu krakkarnir í skólann, misjafnlega sáttir með tímann sem þeir höfðu eytt í leitina daginn áður. Nú var stund milli stríða og aðeins hægt að bíða eftir annarri vísbendingu. Bárust fregnir af foreldrum sem ætluðu að halda leit áfram meðan krakkarnir kláruðu skóladaginn. Ekkert fréttist þó af fundi karamellukrukkunnar þegar önnur vísbending fór í loftið. Þar með fór boltinn loksins að rúlla. Tæplega hálfri klukkustund síðar höfðu nokkrir bílar safnast saman á Hlíðarfjallsvegi, miðja vegu að Skíðastöðum en þar var karamellukrukkan grafin í jörðu. Sindri var fyrstur til að finna skilti sem á stóð: KRÚS og þar með sjálfa krukkuna.
Sindri fær fulla krukku af karamellum að launum auk þess sem hann fær ís að eigin vali fyrir tvo í boði Litlu Ísgerðarinnar. Ísgerðin er í Gránufélagsgötu og mun hún án efa taka á móti Sindra með angandi vöffluilm og sínum einstaka vanillu- og jarðaberjaís.
Sindri Unnsteinsson
Búinn að finna hana.
(( d^_^b ))
Comment — October 11, 2011 @ 16:56
admin
Til hamingju Sindri!
Comment — October 11, 2011 @ 17:11
Helga Halldórs
Frábært,Glerárskóli með þetta:) Flott hjá þér Sindri.
Comment — October 11, 2011 @ 18:18