main image

Kynning á liðum í leitinni

Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

 

 

Sindri með karamellukrukkuna

Karamellukrukkan er fundin!

Langri og strangri leit að karamellukrukkunni er lokið. Það var hann Sindri Unnsteinsson í 8. bekk í Glerárskóla sem fann krukkuna.

Mánudagurinn 10. október hefur án efa reynt á margan leitandann. Hópur duglegra krakka lagði af stað í leit að krukku klukkan 15:15 eflaust í þeirri von að leitin yrði stutt og átakalítil. Annað átti eftir að koma á daginn. Vopnuð vísu hélt hópurinn á vit ævintýranna og sumir með aðstoðarmenn með sér. Komið var við á hinum og þessum stöðum í bænum en án árangurs. Alls staðar gripu krakkarnir í tómt. Myrkur skall á og nokkrar klukkustundir að baki við leit en krukkan enn í felum. Þar með var orðið ljóst að karamellukrukkan yrði á sínum stað yfir nótt og það í fyrsta skipti í fjögurra ára sögu Leitarinnar. Gefin var út tilkynning um frekari vísbendingar daginn eftir.

Þriðjudaginn 11. október mættu krakkarnir í skólann, misjafnlega sáttir með tímann sem þeir höfðu eytt í leitina daginn áður. Nú var stund milli stríða og aðeins hægt að bíða eftir annarri vísbendingu. Bárust fregnir af foreldrum sem ætluðu að halda leit áfram meðan krakkarnir kláruðu skóladaginn. Ekkert fréttist þó af fundi karamellukrukkunnar þegar önnur vísbending fór í loftið. Þar með fór boltinn loksins að rúlla. Tæplega hálfri klukkustund síðar höfðu nokkrir bílar safnast saman á Hlíðarfjallsvegi, miðja vegu að Skíðastöðum en þar var karamellukrukkan grafin í jörðu. Sindri var fyrstur til að finna skilti sem á stóð: KRÚS og þar með sjálfa krukkuna.

Sindri fær fulla krukku af karamellum að launum auk þess sem hann fær ís að eigin vali fyrir tvo í boði Litlu Ísgerðarinnar. Ísgerðin er í Gránufélagsgötu og mun hún án efa taka á móti Sindra með angandi vöffluilm og sínum einstaka vanillu- og jarðaberjaís.

 

Hvað er að gerast við Vestursíðu 9?

Sumir hafa séð stóru vinnuvélarnar hjá Síðuskóla og hugsað með sér hvað sé að gerast. Svarið er einfaldlega það að verið er að byggja nýtt elliheimili.

Byrjað var á verkinu þetta árið og verkinu á að vera lokið þann 1.september 2012. Þann 11.mars 2011 var tekin fyrsta skóflustungan. Voru þar margir viðstaddir.

Um er að ræða fimm kjarna og í hverjum kjarna eru níu íbúðir. Það verða semsagt 45 hjúkrunarrými. Kjarnarnir verða tengdir með göngum og verður stór samkomusalur inn á milli kjarnanna. Þar verður líka iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og skrifstofa deildarstjóra.

Ásamt 45 herbergjum verður eldhús, borðsalur, setustofa, vinnurými, þvottahús og geymslur. Stærð hússins verður 3.752m2 og stærð lóðar er 16.340m2 . Áætlaður kostnaður er um 1,25 milljarðar króna auk búnaðar.

En aðalmálið er samt að gamla fólkinu líði vel og finnist lífið enn með tilgang þrátt fyrir að þau séu orðin gömul. Þá skiptir kostnaður engu máli. 🙂

Heimildir: Akureyri.is og mbl.is

10. október 2011

Höfundur: Þóra Katrín Erlendsdóttir, 8. bekk Síðuskóla.

Leitin að karamellukrukkunni

Fimmta vika í Leitinni að grenndargralinu stendur nú yfir. Þar með eru þátttakendur um það bil hálfnaðir í átt að lokamarkmiðinu. Skapast hefur sú hefð að leita að karamellukrukkunni um miðbik Leitarinnar. Ekki verður breytt út af vananum þetta árið.

Karamellukrukkan inniheldur glaðning. Þeir sem finna krukkuna eignast innihald hennar. Krukkan er falin á Akureyri eða í nánasta umhverfi.

Þátttakendur sem hafa skilað inn réttum lausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að krukkunni.

Þátttakendur fá vísbendingu sem vísar á karamellukrukkuna. Hana verður hægt að nálgast í þátttökuskólunum mánudaginn 10. október kl. 15:15. Nánari upplýsingar gefa umsjónarmenn Leitarinnar.