main image

Ný frétt!


Bannað að vera með húfur í kennslustundum

Óþarfa leiðindi?

Ein regla í mörgum skólum er að húfunotkun sé bönnuð í kennslustundum. Skólaliðar og aðallega kennarar nota mikið af tíma í að biðja nemendur um að taka niður húfur og tuða í þeim um þessa reglu. Til hvers?

Til hvers að vera að eyða orku í þetta og búa til leiðinda móral? Jú, sumir vilja meina að það sé ókurteisi að hafa húfur inni. En ekki skaðar þetta neinn? Er þetta ekki bara ákveðið brot á nemendum? Ekki myndu kennararnir vilja að húfurnar þeirra yrðu rifnar af þeim og allt hárið stæði út í loftið, kannski nývaknaðir snemma um morguninn fyrir framan alla vini sína. Á móti koma síðan rök um að nemendur eigi að hlýða ákveðnum reglum. En nemendur þurfa að skilja af hverju þessi regla er sett og hver eru grundvallaatriðin á bak við regluna? Sumir segja líka að þetta sé bara sérviska hjá nemendum. En á nemendum ekki að líða sem best í skólanum því þar eyða þeir mestum hluta af tíma sínum? Staðreyndin er sú að sumum líður betur með húfu á hausnum og það veitir mörgum ákveðið öryggi.

Þess vegna spyr ég; því gera  kennarar stórmál úr því að einhverjir nemendur vilji hafa húfur í tíma? Truflar það kennsluna að einhver sé með húfu á hausnum? Af hverju leyfa kennarar þeim ekki bara að hafa húfur í tíma og hætta að eyða orku í svona vitleysu? Hvað næst? Verður kannski bannað að vera í sokkum í tímum? Mér finnst þetta nú bara óþarfa leiðindi.

                            Höfundur: Birta María Aðalsteinsdóttir, Giljaskóla