Til nemenda

Kæru Leitendur.

Leitin að grenndargralinu 2011 er á næsta leiti. Fyrsta þraut mun birtast hér á heimasíðunni mánudaginn 5. september. Gralið ferðast þessa dagana milli skólanna sex svo þið getið séð gripinn sem barist verður um næstu vikurnar. Áður en langt um líður verður því komið fyrir á öruggum stað hér í bænum þar sem það bíður þess að komast í hendur einhverra úr ykkar röðum.

Nú sem áður mun heimasíðan leika lykilhlutverk við leitina að gralinu. Auk þess sem þrautirnar munu birtast þar verða reglulega sagðar fréttir af gangi mála. Við viljum hvetja ykkur sem takið þátt til að láta okkur vita ef eitthvað fréttnæmt gerist á meðan leit stendur. Ef þið upplifið ógleymanleg augnablik eða lendið í skemmtilegum ævintýrum, látið okkur vita svo við getum sagt frá því hér á heimasíðunni. Eins eru myndir úr vettvangsferðum ykkar um bæinn vel þegnar.

Nú er Leitin að grenndargralinu komin á facebook en þar munu birtast myndir, stuttar fréttir og tilkynningar. Þá er það vettvangur fyrir ykkur til að láta í ljós skoðanir ykkar á öllu sem tengist Leitinni.

Baráttan harðnar ár frá ári með þátttöku fleiri skóla. Það er jákvætt og gerir Leitina enn meira spennandi. Við sem stöndum að Leitinni að grenndargralinu vonum að þið hafið gagn og gaman af þeirri vegferð sem þið standið nú frammi fyrir. Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu.

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd