main image

Ný frétt!


Bannað að vera með húfur í kennslustundum

Óþarfa leiðindi?

Ein regla í mörgum skólum er að húfunotkun sé bönnuð í kennslustundum. Skólaliðar og aðallega kennarar nota mikið af tíma í að biðja nemendur um að taka niður húfur og tuða í þeim um þessa reglu. Til hvers?

Til hvers að vera að eyða orku í þetta og búa til leiðinda móral? Jú, sumir vilja meina að það sé ókurteisi að hafa húfur inni. En ekki skaðar þetta neinn? Er þetta ekki bara ákveðið brot á nemendum? Ekki myndu kennararnir vilja að húfurnar þeirra yrðu rifnar af þeim og allt hárið stæði út í loftið, kannski nývaknaðir snemma um morguninn fyrir framan alla vini sína. Á móti koma síðan rök um að nemendur eigi að hlýða ákveðnum reglum. En nemendur þurfa að skilja af hverju þessi regla er sett og hver eru grundvallaatriðin á bak við regluna? Sumir segja líka að þetta sé bara sérviska hjá nemendum. En á nemendum ekki að líða sem best í skólanum því þar eyða þeir mestum hluta af tíma sínum? Staðreyndin er sú að sumum líður betur með húfu á hausnum og það veitir mörgum ákveðið öryggi.

Þess vegna spyr ég; því gera  kennarar stórmál úr því að einhverjir nemendur vilji hafa húfur í tíma? Truflar það kennsluna að einhver sé með húfu á hausnum? Af hverju leyfa kennarar þeim ekki bara að hafa húfur í tíma og hætta að eyða orku í svona vitleysu? Hvað næst? Verður kannski bannað að vera í sokkum í tímum? Mér finnst þetta nú bara óþarfa leiðindi.

                            Höfundur: Birta María Aðalsteinsdóttir, Giljaskóla

 

Leitin tæplega hálfnuð

Fjórða vika er hafin í Leitinni að grenndargralinu 2011. Þátttakendur hafa komið víða við fyrstu vikurnar. Í þeirri fyrstu þurftu þeir að kynna sér árásina á Goðafoss 1944. Í annarri þraut var farið á slóðir Nonna. Í þriðju þraut fóru þátttakendur í vefleiðangur á netinu til að kynna sér sögu Charles Thorson. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa skapað frægar teiknimyndapersónur í Hollywood. Í þraut þessarar viku heldur sagan um Charles áfram. Munu krakkarnir komast að raun um að  tengsl eru milli hans og Akureyrar. Kemur þá í ljós skemmtileg tenging við þraut annarrar viku.

 

Þegar Leitin er hálfnuð keppast krakkarnir við að finna Karamellukrukkuna. Um er að ræða krukku sem hefur að geyma óvæntan glaðning og er falin innan bæjarmarkanna. Allir þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst, öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu. Nánari fréttir í tengslum við leitina að karamellukrukkunni munu birtast síðar.

 

Leitin er löng og ströng og það er ekki allra að klára tíu þrautir á jafnmörgum vikum. Enn sem komið er hefur enginn heltst úr lestinni af þeim sem hófu leik í fyrstu viku. Það er jákvætt. Vonandi halda sem flestir áfram, leysa þrautirnar tíu og öðlast þannig rétt á að gera atlögu að gralinu.

 

Sex skólar á Akureyri berjast um að finna Grenndargralið þetta árið. Þrír skólar hafa fundið gralið á jafnmörgum árum og verður spennandi að sjá hvort sá fjórði bætist í hópinn í ár.

 

Aðeins eitt lið mun þó standa með pálmann í höndunum í nóvember.

 

 

 

Leitin er hafin!

Til nemenda

Kæru Leitendur.

Leitin að grenndargralinu 2011 er á næsta leiti. Fyrsta þraut mun birtast hér á heimasíðunni mánudaginn 5. september. Gralið ferðast þessa dagana milli skólanna sex svo þið getið séð gripinn sem barist verður um næstu vikurnar. Áður en langt um líður verður því komið fyrir á öruggum stað hér í bænum þar sem það bíður þess að komast í hendur einhverra úr ykkar röðum.

Nú sem áður mun heimasíðan leika lykilhlutverk við leitina að gralinu. Auk þess sem þrautirnar munu birtast þar verða reglulega sagðar fréttir af gangi mála. Við viljum hvetja ykkur sem takið þátt til að láta okkur vita ef eitthvað fréttnæmt gerist á meðan leit stendur. Ef þið upplifið ógleymanleg augnablik eða lendið í skemmtilegum ævintýrum, látið okkur vita svo við getum sagt frá því hér á heimasíðunni. Eins eru myndir úr vettvangsferðum ykkar um bæinn vel þegnar.

Nú er Leitin að grenndargralinu komin á facebook en þar munu birtast myndir, stuttar fréttir og tilkynningar. Þá er það vettvangur fyrir ykkur til að láta í ljós skoðanir ykkar á öllu sem tengist Leitinni.

Baráttan harðnar ár frá ári með þátttöku fleiri skóla. Það er jákvætt og gerir Leitina enn meira spennandi. Við sem stöndum að Leitinni að grenndargralinu vonum að þið hafið gagn og gaman af þeirri vegferð sem þið standið nú frammi fyrir. Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu.