Gabríel sigraði í ritgerðasamkeppninni Kæri Jón
Sigurvegarar taka á móti verðlaunum í Þjóðmenningarhúsinu
Þann 17. júní næstkomandi verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Í tilefni af því skipaði forsætisráðherra sérstaka afmælisnefnd árið 2007 í tengslum við fæðingarafmælið. Hlutverk hennar var að skipuleggja hina og þessa viðburði á afmælisárinu sem tengjast lífi og starfi Jóns. Eitt af því sem nefndin stóð fyrir í febrúar var ritgerðasamkeppni meðal grunnskólanema í 8. bekk. Nemendur skrifuðu Jóni bréf þar sem þeir sögðu frá sínu daglega lífi, áhugamálum og öðru sem þeir vildu deila með frelsishetjunni. Fjölmörg bréf bárust afmælisnefndinni og fengu tólf nemendur víðsvegar af landinu aðalverðlaun fyrir skemmtileg bréf. Einn af þeim sem fékk aðalverðlaun er Gabríel Snær Jóhannesson, nemandi í 8. bekk í Giljaskóla á Akureyri. Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, afhenti verðlaunin í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík laugardaginn 22. mars sl. við hátíðlega athöfn. Gabríel var að sjálfsögðu þar. Heimasíða grenndargralsins ákvað að leggja nokkrar spurningar fyrir Gabríel í tilefni af þessum glæsilega árangri.
Hvernig varð þér við þegar þú fékkst fréttirnar um að þú hefðir unnið ritgerðasamkeppnina Kæri
Jón?
Mér brá frekar mikið. Ég bjóst ekki við því að vinna.
Hvað var skemmtilegast við athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu?
Fyrst og fremst heiðurinn að fá að vera þarna. Það var gaman að hitta Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Sólveigu Pétursdóttur fyrrverandi forseta Alþingis en hún er formaður afmælisnefndarinnar. Svo var auðvitað bara gaman að taka á móti verðlaununum.
Hvaða þýðingu hafa verðlaunin fyrir þig?
Fyrir mér eru þau mikilvæg. Engin spurning.
Hvaða augum lítur þú Jón Sigurðsson eftir þátttökuna í ritgerðasamkeppninni?
Ég lít upp til Jóns Sigurðssonar. Hann er jú á 500 króna seðlinum! Í mínum augum er hann álíka mikilvægur og Snorri Sturluson
Hér má hlusta á viðtal sem tekið var við Gabríel og aðra vinningshafa af þáttagerðamönnum rásar 1.
Að lokum birtum við hér bréfið sem Gabríel sendi Jóni Sigurðssyni.
Akureyri 603
Snægili 2 – 101
14. febrúar 2011.
Kæri Jón.
Sæll Jón. Ég heiti Gabríel Snær Jóhannesson. Við höfum ekki hist en ég kannast við þig úr 17. júní-hátíðinni og ævisögu þinni eftir Guðjón Friðriksson.
Þú ert Íslandi mikilvægur eins og þú veist. Ef ekki væri þín vegna væru Danir sennilega yfir okkur eða annar maður hefði mótmælt en það hefði getað endað illa. Mér finnst þú álíka mikilvægur og Snorri Sturluson. Án efa ert þú með þekktustu mönnum í Íslandssögunni. Mér myndi þykja það mikill heiður að kynnast þér. Það hlýtur að vera skemmtilegt að vera á fimmhundruð króna seðlinum sem er án efa algengasti seðillinn á landinu. Auk þess eru margir búnir að taka þig sem fyrirmynd og reyna að feta í fótspor þín. Í Danmörku ertu mjög frægur og hlýtur að hafa verið heiðraður allnokkrum sinnum. En sjaldan eignast maður marga vini án þess að eignast nokkra óvini. Áttir þú einhverja óvini? Þó það skipti svo sem ekki miklu máli. Nú er sjúkra- og heilsukerfið mun skárra en á þínum dögum og menntun algengari því menn þurfa ekki að ferðast til Danmerkur til að mennta sig. Samt eru nokkrir tossar sem virða ekki tækifærið og enda að vinna í sjoppu eða ræstingum. Þín áhugamál eru samkvæmt því sem ég hef heyrt / lesið: bókmenntir, réttindi manna, stærðfræði og fornfræði. Mín áhugamál eru tækni, eðlisfræði, dýrafræði, tölvur og listaverk eftir Leonardo Da Vinci.
Nú ætla ég út í fótbolta með Benedikt Orra Péturssyni, ættuðum frá Danmörku! og Andra Þór Guðmundssyni, ættuðum frá Akureyri.
Vertu sæll og get varla beðið eftir svari.
Myndir teknar af vefsíðu Giljaskóla
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd