main image

Grenndargralið afhent 3. desember

Senn lýkur Leitinni að grenndargralinu árið 2010 með formlegum hætti. Miðvikudaginn 1. desember nk. verða veittar viðurkenningar þeim sem náðu framúrskarandi árangri í Leitinni bæði í Giljaskóla og Síðuskóla. Föstudaginn 3. desember verða sömu viðurkenningar veittar í Glerárskóla auk þess sem sigurvegarar í Leitinni að grenndargralinu 2010 verða krýndir. Fá þeir grenndargralið afhent við hátíðlega athöfn. Heimasíðan mun flytja fréttir af samkomuhöldunum og birta myndir.


Grenndargralið er fundið!

Það voru Mjölnismennirnir, þeir Aron Elvar og Baldvin Kári úr Glerárskóla sem fundu grenndargralið þetta árið. Þeir eru því sigurvegarar í Leitinni að grenndargralinu árið 2010.

Óhætt er að segja að mánudaginn 8. nóvember hafi ríkt mikil stemning á heimilum þátttakenda og umsjónarmanna Leitarinnar þegar síðasta þrautin fór í loftið. Þrautin birtist á heimasíðunni kl. 19:00 og þá fór allt af stað. Þáttakendur reyndu að finna rétt svör og gerðu það í kapphlaupi við tímann. Í einhverjum tilfellum nutu þeir aðstoðar fjölskyldunnar og jafnvel góðra manna út í bæ. Umsjónarmenn svöruðu í símann meira og minna allt kvöldið, ýmist þannig að það olli miklum vonbrigðum hinum megin símalínunnar eða vakti upp mikil gleðihróp. Já, tilfinningarnar voru miklar þessa kvöldstund. Leið drjúgur tími þar til fyrsta liðið hafði leyst þrautina. Í kjölfarið fengust tveir síðustu bókstafirnir og þá hófst vinna við að raða bókstöfunum ellefu saman og finna lykilorðið. Eftir að það var í höfn fengu liðin lokavísbendinguna sem vísaði á gralið. Einhverjir náðu þessu öllu áður en gengið var til náða og héldu út í náttmyrkrið með það að markmiði að finna gripinn. Meðal viðkomustaða voru kirkjugarðurinn og Lystigarðurinn. Gralið varð að bíða sigurvegaranna til næsta dags.

Sum liðin töldu að vísbendingin vísaði á menningarhúsið Hof og gerðu ráðstafanir í því skyni að komast þangað snemma morguninn eftir. Það gerðu Aron og Baldvin og þar veðjuðu þeir á réttan hest. Þeir voru mættir kl. 07:30 fyrstir allra. Þeir félagarnir höfðu upp á húsverðinum í Hofi sem aðstoðaði þá við að hafa upp á gralinu. Næstu þátttakendur sem mættu á staðinn horfðu á eftir sigurvegurunum ganga út með gralið undir höndunum í sigurvímu. Að sögn þeirra var erfitt að horfa upp á það eftir alla vinnuna sem þeir höfðu lagt í verkefnið síðustu tíu vikur eða svo. Síðustu liðin voru enn að leita síðdegis á þriðjudeginum en þá fór að spyrjast út meðal nemenda þátttökuskólanna að gralið væri fundið.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim Aroni og Baldvini sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Í vissum skilningi eru þessir krakkar allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þau öðrum mikil fyrirmynd.

Glerárskóli er þriðji skólinn á jafnmörgum árum til að hýsa grenndargralið. Víst er að það mun sóma sér vel þar næsta árið gestum og gangandi til yndis og ánægjuauka. Þá er gaman að geta þess að Aron og Baldvin eru fyrstu strákarnir til að sigra í Leitinni að grenndargralinu.

Við óskum Mjölnismönnum og Glerárskóla til hamingju með sigurinn.

Umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu 2010,

Brynjar, Helga og Sigrún.

Síðasta þrautin er komin í loftið – endaspretturinn er hafinn!

Grenndargralið er handan við hornið!

Mánudaginn 8. nóvember hefst tíunda og jafnframt síðasta vika Leitarinnar að grenndargralinu 2010. Löng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar mánudaginn 8. nóvember kl. 19:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur geta skilað henni af sér á skólatíma eins og tíðkast hefur fram að þessu. Þar sem tíminn skiptir öllu máli nú má koma lausninni áleiðis með öðrum hætti svo sem með tölvupósti eða símtali. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á gralið. Það lið sem finnur gralið sigrar í Leitinni að grenndargralinu 2010. Sigurvegararnir taka gralið með sér ef þeir hafa tök á því en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið. Aðeins tvö verkefni sem þarf að leysa áður en það kemst í ykkar hendur.

Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Vera kann að síðustu tvö verkefnin reyni á þolrifin hjá einhverjum. Hafið það hugfast að þið eruð búin að sýna margoft að þið getið leyst verkefni sem við fyrstu sýn virðast óleysanleg. Með þolinmæði og elju er allt hægt. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa. Munið að góðir hlutir gerast hægt!

Gangi ykkur vel.

Brynjar, Helga og Sigrún

umsjónarmenn Leitarinnar að grenndargralinu 2010.

Mjölnismenn

Við kynnum Mjölnismenn til sögunnar. Hér eru á ferðinni tveir strákar úr Glerárskóla sem stefna á sigur í Leitinni.

Klukkan

Klukkan er skipuð tveimur stúlkum úr 10. bekk í Giljaskóla.

Mörgæsirnar

Hér kemur annað lið úr Giljaskóla, þær ætla sér ekkert annað en sigur í leitinni.

H & H

Þá er komið að fyrstu fulltrúum frá Giljaskóla. Liðið heitir H & H og er skipað tveimur stúlkum úr 9. bekk.


Sporðdrekarnir

Þriðja liðið heitir Sporðdrekarnir. Liðið skipa tveir drengir úr 8. bekk Glerárskóla. Þeir, líkt og aðrir, ætla sér ekkert annað en sigur í Leitinni að grenndargralinu 2010.