Heimasíðan opnuð

Nú þegar þriðja ár Leitarinnar er gengið í garð er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá fyrsta ári 2008. Þátttaka þriggja skóla, viðurkenning skólanefndar Akureyrarbæjar og styrkur frá Menntamálaráðuneyti. Allt eru þetta hlutir sem verkefnið getur státað af þrátt fyrir ungan aldur. Leitin hefur vaxið jafnt og þétt frá því Giljaskóli einn tók þátt fyrsta árið. Hún er farin að vekja nokkra athygli og nú bætist enn ein skrautfjöðurin í hattinn með tilkomu heimasíðunnar. Heimasíðan mun þjóna þátttakendum Leitarinnar sem upplýsingamiðill sem og öðrum áhugasömum um verkefnið. Þrautirnar og fróðleikur sem þeim tengjast má sjá á síðunni. Þá verður hægt að lesa skemmtilega fróðleiksmola um sögu heimabyggðar, aðra en þá sem gagnast við lausn þrautanna.

Ekki má gleyma skemmtanagildinu. Það er von okkar sem stöndum að verkefninu að gestir heimasíðunnar hafi gaman af því sem þar verður boðið upp á. Myndir verða fyrirferðamiklar á síðunni t.d. af þáttakendum og sögufrægum stöðum í Eyjafirði. Sagðar verða fréttir af gangi mála og liðin kynnt til sögunnar eftir að Leitin er hálfnuð.

Fjölmargir spennandi möguleikar felast í notkun heimasíðunnar. Nú geta foreldrar, systkini, ömmur og afar eða aðrir sem tengjast þátttakendum Leitarinnar tekið fullan þátt með börnunum. Aðstandendur Leitarinnar að grenndargralinu vilja nota þetta tækifæri og hvetja fjölskyldumeðlimi og/eða vini þeirra sem taka þátt í Leitinni árið 2010 að vera virkir þátttakendur í þeirri vinnu sem framundan er. Hvort sem það er aðstoð við upplýsingaöflun, akstur milli staða eða hvatning, þá veitir það vind í segl þeirra sem leita að grenndargralinu.

Við sem stöndum að baki verkefninu rennum nokkuð blint í sjóinn með þessu nýjasta útspili. Enn er ákveðin hugmyndavinna í gangi varðandi notkunargildi og útlit síðunnar og má búast við þreifingum því samfara næstu daga og vikur.Við vonum innilega að heimasíðan eigi eftir að ýta undir enn frekari landvinninga verkefnisins og gera okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu nemenda.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd