main image

Þrautalending

Nú stendur yfir smíði á þrautum fyrir Leitina að grenndargralinu fyrir haustið 2010. Þrautirnar verða 10 eins og áður, krefjandi en ákaflega skemmtilegar. Að semja eina þraut getur tekið langan tíma enda liggur oft talsverð heimildavinna að baki og grúsk. Nú þegar er búið að aka um 200 km, hjóla um Akureyri og nágrenni, lesa hundruðir blaðsíðna og tala við skemmtilegt fólk.

Að venju er Akureyri í aðalhlutverki en bærinn okkar lumar á ýmsum skemmtilegum leyndardómum. Þannig teygja þrautirnar anga sína til Þýskalands, Ameríku og jafnvel Jerúsalem !

Það er því spennandi haust hjá liðunum sem ætla sér að vinna grenndargralið 2010.

Viðurkenning skólanefndar Akureyrarbæjar 2010

Laugardagurinn 5. júní sl. var stór dagur fyrir skólaþróunarverkefnið okkar, Leitin að grenndargralinu. Þá boðaði skólanefnd Akureyrarbæjar til samkomu í Listasafninu þar sem sjö nemendum og átta kennurum og starfsmönnum við grunn- og leikskóla Akureyrarbæjar var veitt viðurkenning fyrir að hafa skarað fram úr í starfi. Óskað var eftir tilnefningum frá starfsmönnum, skólum og foreldrum um nemendur og starfsmenn eða verkefni sem talin voru hafa skarað fram úr.

Skemmst er frá því að segja að Brynjar Karl Óttarsson hlaut viðurkenningu skólanefndarinnar fyrir metnað við framkvæmd verkefnisins: Leitin að grenndargralinu. Við þökkum þennan heiður og erum stolt af viðurkenningunni. Hún verður okkur hvatning til að halda áfram að þróa þetta skemmtilega verkefni.

Á myndinni má sjá Brynjar Karl Óttarsson og Fanneyju Lind Pétursdóttur  nemanda í Giljaskóla en hún hlaut einnig viðurkenningu skólanefndar við sama tilefni.