main image

Bók um lífið í Kristnesi komin út

lifid-i-kristnesthorpi-kapaBókin Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Grenndargralið tekur hér saman sögur af upplifunum fólks sem bjó/býr í starfsmannabústöðunum í Kristnesi og á sveitabæjunum í nánasta nágrenni Kristneshælis. Rakin er 90 ára saga búsetuþróunar, saga fasteigna og umhverfis í bland við daglegt líf þorpsbúa. Bókin byggir á viðtölum við 8 einstaklinga sem búið hafa á Kristnestorfunni á mismunandi tímabilum frá vígslu Kristneshælis árið 1927 til dagsins í dag. Bókin inniheldur eitt og annað sem veitir innsýn í lífið í Kristnesþorpi. Má í því sambandi nefna minningabrot eða nokkurs konar örsögur þar sem íbúar Kristness deila með lesandanum einni minningu eða sögu af skemmtilegu atviki eða eftirminnilegu fólki. Þá hefur bókin að geyma efni úr dagblöðum, tímaritum og bókum auk áður óbirts efnis úr fórum fyrrverandi íbúa svo ekki sé minnst á mikinn fjölda ljósmynda. Gerð er tilraun til að taka saman frásagnir af ýmsu tagi, í máli og myndum og blanda þeim saman þannig að útkoman verði aðgengilegt uppflettirit um viðfangsefnið – bók um upplifanir fólks af lífinu í Kristnesþorpi fyrir íbúa Kristness í fortíð, nútíð og framtíð sem og aðra áhugasama. Ófá ævintýrin leynast í hugum þeirra sem búið hafa í Kristnesi. Hér gefst tækifæri til að skyggnast inn í samfélag sem á sér fáar hliðstæður. Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Sunna Katrín Hreinsdóttir í Lundarskóla

Sunna Katrín sigurvegari

Leitinni að Grenndargralinu 2016 er lokið

TV Newscast Photo Effect: https://www.tuxpi.com/photo-effects/fake-newscast

Grenndargralið er fundið! Sunna Katrín Hreinsdóttir í Lundarskóla fann Gralið áður en tvær klukkustundir voru liðnar frá því að lokaþrautin fór í loftið. Aldrei áður hefur sigurvegari verið jafn snöggur að finna Gralið. Hér er jafnframt um fyrsta sigur Lundarskóla að ræða í Leitinni að Grenndargralinu. Gralið var í vörslu Soffíu Vagnsdóttur höfundar sönglagatextans Zikka zakka þar til Sunna birtist og tók við Gralinu úr höndum Soffíu. Lundarskóli mun því hýsa Gralið næsta árið.

Grenndargralið óskar Sunnu Katrínu, sem og Lundarskóla,  til hamingju með sigurinn.

 

Lokaspretturinn er hafinn!!!!

Grenndargralið

Úrslit ráðast í Leitinni 2016 á föstudaginn

GrenndargraliðLöng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á Gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar föstudaginn 11. nóvember kl. 18:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut nr. 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á Gralið. Það lið sem finnur Gralið sigrar í Leitinni að Grenndargralinu 2016. Sigurvegararnir taka Gralið með sér en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á Gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið.
Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa.

Gangi ykkur vel.

Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Leitarinnar

Ein vika eftir af Leitinni 2016

victoria-posterSkemmtiferðaskipið Victoria Luise var smíðað í Þýskalandi árið 1900 og tók rúmlega 2000 farþega. Upphaflega hét skipið Deutschland en nafninu var breytt í Victoria Luise árið 1910. Skipið var með stærri skipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma og jafnframt það hraðskreiðasta í heimi frá 1900-1906. Við smíði skipsins var mikið lagt upp úr krafti og hraða á kostnað þæginda fyrir farþega. Hraðinn hafði þær hliðarverkanir að skipið átti það til að hristast fullmikið fyrir smekk sumra farþega. Gekk skipið gjarnan undir nafninu Hanastélshristarinn (The Cocktail Shaker). Árið 1921 var nafni skipsins aftur breytt og nú fékk það nafnið Hansa. Skipið endaði sem brotajárn í Hamborg í Þýskalandi árið 1925.

 

Níunda og næstsíðasta vika Leitarinnar er farin af stað.

Áttunda vika í Leitinni

tveir-mennMögnuð saga tveggja dularfullra manna í þraut vikunnar. Báðir bjuggu í Eyjafirði á sitthvoru tímabilinu. Þeir áttu ýmislegt sameiginlegt. Báðir nutu þeir mikillar virðingar og komu úr efstu stétt aðalsmanna. Annar var þingmaður og hinn heimsþekktur uppfinningamaður. Þeir voru þekktir fyrir góðmennsku og hjálpsemi og áttu auðvelt með að hrífa fólk með sér. Annar hóf lífsgöngu sína í Ameríku en hinn er talinn hafa endað sína þar. Báðir eru álitnir hafa lifað í vellystingum þann tíma sem þeir voru í Bandaríkjunum. Þá áttu þeir það sameiginlegt að enda ævina á nokkuð óhefðbundinn hátt. Báðir létu þeir sig hverfa, annar í sjóinn en óvíst er um afdrif hins.

Krukkan fundin – Leitin 2016 hálfnuð

krukkan-2016Sigrún María Engilbertsdóttir er handhafi Karamellukrukkunnar 2016. Þetta er annað árið í röð sem Sigrún finnur Krukkuna góðu. Með Sigrúnu á myndinni er frændi hennar Kristján Rúnar sem aðstoðaði frænku sína við leitina. Kristján sigraði í Leitinni að Grenndargralinu árið 2015 og hefur jafnframt unnið Karamellukrukkuna.

Grenndargralið óskar Sigrúnu Maríu til hamingju með sigurinn. Hún fær ísveislu að launum fyrir góðan árangur í boði ísbúðarinnar Akureyri.

Eins og ávallt markar leitin að Karamellukrukkunni tímamót í Leitinni að Grenndargralinu. Leitin er nú hálfnuð; fimm þrautir að baki, fimm þrautir eftir.Ísbúðin Akureyri

Leitin að Karamellukrukkunni

Nú þegar Leitin að Grenndargralinu 2016 er að verða hálfnuð er við hæfi að hita upp fyrir lokaátökin. Það gerum við með því að leita að Karamellukrukkunni.

Þeir sem skila inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst (fyrir föstudaginn 14. október kl. 12:00) öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu.

Hvað er í Karamellukrukkunni? Hvar er hún? Hverjir finna krukkuna og hljóta þann óvænta glaðning sem hún inniheldur?

Vísbending, sem leiðir til fundar Karamellukrukkunnar, verður afhend þátttakendum föstudaginn 14. október í stofu 304 í Giljaskóla kl. 16:00.

Leitin að Grenndargralinu 2016 er hafin!

Sem fyrr eru það nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar sem freista þess að finna Gralið. Fyrstu ár Leitarinnar var hún viðbót við hefðbundið nám og stóð þannig fyrir utan hefðbundinn vinnuramma nemenda. Leitin er nú komin í hóp valgreina á unglingastigi og verður því metin sem slík. Öllum krökkum í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar er hins vegar velkomið að taka þátt, ekki síður þeim sem eru ekki með Leitina sem valgrein. Allar nánari upplýsingar um Leitina má finna á fésbókarsíðu og heimasíðu Grenndargralsins (www.grenndargral.is ).

Framundan er löng og ströng leit. Grenndargralið vill hvetja foreldra og aðra aðstandendur þátttakenda í Leitinni til að aðstoða þá við úrvinnslu þrautanna. Leitin er kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur og vini að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Brynjar Karl Óttarsson

verkefnisstjóri Grenndargralsins