main image

Hollvinir Kristneshælis bindast samtökum

 

 

 

Stofnfundur Hollvina Hælisins var haldinn að kvöldi fimmtudagsins 21. september sl. í húsnæði Verk-Smiðjunnar að Glerárgötu 34.  Hugmyndin að baki samtökunum er að mynda hóp áhugasamra einstaklinga og fyrirtækja/stofnana sem ætlað er að styðja við uppsetningu og rekstur á setri um sögu berklanna að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, kaffihúsi og mögulega gistiaðstöðu. Kristneshæli var vígt þann 1. nóvember árið 1927 og fagnar því 90 ára afmæli í ár. Hælið varð heimili fjölda einstaklinga á öllum aldri næstu áratugina. María Pálsdóttir leik- og athafnakona hefur unnið ötullega að því um nokkurt skeið að draumurinn um berklasafn á æskuslóðum hennar verði að veruleika. Hún hefur setið að samningaborðinu í því skyni að fá húsnæði á Kristnesi undir fyrirhugað safn. Samhliða þeirri vinnu hefur hún sankað að sér munum og öðrum heimildum sem tengjast sögu berklanna.

Tilgangur nýju samtakanna verður að styðja og styrkja stofnun og starfsemi setursins undir merkjum HÆLISINS  t.a.m. með fjárhagslegum og faglegum stuðningi og myndun tengslanets. Stefnt verður að því að efla tengsl við samfélagið og sérstaklega þá sem tengjast sögu berklanna með einum eða öðrum hætti. Samtökin eru hugsuð sem vettvangur fyrir kynningu á setrinu. Aðild að samtökunum er opin öllum sem vilja vinna að markmiðum þeirra enda greiði þeir árlegt félagsgjald, krónur 2.500 pr. einstakling.

Á fundinum skýrði María frá því hvernig hugmyndin varð til og með hvaða hætti mál hafa þróast síðan. Hún kynnti hugmyndir sínar um framsetningu á setrinu og lagði áherslu á að ekki yrði um „hefðbundið“ safn að ræða með myndum og texta á veggjum og munum á borðum eingöngu. Hún nefndi m.a. leikræna útfærslu þar sem hún og mögulega aðrir starfsmenn setursins klæddust búningum og færu í hlutverk vistmanna og starfsfólks Hælisins.

Á þriðja tug mættu á stofnfundinn. Sköpuðust nokkrar umræður um berklana og Kristneshæli. Regína Torfadóttir sagði frá reynslu sinni af dvöl á Hælinu en hún dvaldist þar um tveggja og hálfs árs skeið sem barn í byrjun sjötta áratugarins. Fleiri tóku til máls og sögðu reynslusögur.

Í lok fundarins var kosin stjórn Hollvina Hælisins. Kosningu hlutu Hildur Hauksdóttir framhaldsskólakennari, Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld, Jón Már Héðinsson skólameistari, Kristjana Aðalgeirsdóttir arkitekt og María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri. Ef allt gengur að óskum standa vonir til þess að setur um sögu berklanna að Kristnesi opni vorið 2018.

Önnur vika Leitarinnar 2017

Hér má nálgast þraut nr. 2.

Leitin að Grenndargralinu 2017 er farin af stað!!!

Fyrsta þraut er komin í loftið. Sjón er sögu ríkari.

 

 

Leitin að Grenndargralinu fer fram í tíunda skipti

Leitin að Grenndargralinu hefst föstudaginn 8. september. Leitin er valgrein fyrir nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar. Full ástæða er til að minna á að Leitin er engu að síður í boði fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Allir geta tekið þátt. Aðeins þeir sem skráðir eru í valgreinina hafa rétt til að leita að Gralinu í lokin, þ.e. leysa lokavísbendinguna og fara á staðinn þar sem Gralið er falið. Aðrir ljúka keppni þegar þeir hafa ráðið lokavísbendinguna, rétt áður en atlaga er gerð að Gralinu.

Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

 

Nokkur praktísk atriði vegna Leitarinnar 2017:

 • Leitin að Grenndargralinu er valgrein í grunnskólum Akureyrar (8. – 10. bekkur). Allir mega taka þátt, líka þeir sem ekki völdu Leitina sem valgrein.
 • Ein þraut á viku í 10 vikur. Þrautirnar birtist á föstudögum á www.grenndargral.is undir liðnum Leitin að Grenndargralinu efst á forsíðunni.
 • Lausnum  er skilað til umsjónarmanns með tölvupósti (brynjar@akmennt.is).
 • Þátttakendur  fá bókstaf fyrir hverja rétta lausn. Þeir safna saman bókstöfum. Eftir 10 vikur reyna keppendur að finna hvert lykilorðið er með því að raða þeim saman.
 • Keppendur láta umsjónarmann vita þegar lykilorðið er fundið. Þá hefst baráttan um að finna Gralið. Keppendur fá lokavísbendingu sem vísar á Gralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær.
 • Grenndargralið er falið einhvers staðar á Akureyri.
 • Farsælast er að leysa þrautirnar jafnt og þétt. Leyfilegt er þó að skila lausnum inn síðar en að viku liðinni. Þá má einnig skila inn lausnum við fleiri en einni þraut samtímis.
 • Hægt er að hefja leik hvenær sem er eftir að Leit hefst.
 • Þeir sem klára fyrstu 5 þrautirnar og skila inn réttum úrlausnum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að Karamellukrukkunni. Hún er falin innan bæjarmarkanna og þeir sem finna hana eignast hana og innihald hennar.
 • Aðrir en nemendur í 8. -10. bekk mega taka þátt með því að leysa þrautirnar. Þegar kemur að endalokunum eru það eingöngu þeir nemendur á unglingastigi sem skráðir eru í valgreinina sem mega freista þess að finna Gralið.
 • Lokamarkmið: Verða fyrstur til að finna Grenndargralið og fá það til varðveislu í eitt ár.

Leitin að Grenndargralinu 2017

 

Leitin að Grenndargralinu 2017 hefst föstudaginn 8. september. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.

 

Bók um lífið í Kristnesi komin út

lifid-i-kristnesthorpi-kapaBókin Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Grenndargralið tekur hér saman sögur af upplifunum fólks sem bjó/býr í starfsmannabústöðunum í Kristnesi og á sveitabæjunum í nánasta nágrenni Kristneshælis. Rakin er 90 ára saga búsetuþróunar, saga fasteigna og umhverfis í bland við daglegt líf þorpsbúa. Bókin byggir á viðtölum við 8 einstaklinga sem búið hafa á Kristnestorfunni á mismunandi tímabilum frá vígslu Kristneshælis árið 1927 til dagsins í dag. Bókin inniheldur eitt og annað sem veitir innsýn í lífið í Kristnesþorpi. Má í því sambandi nefna minningabrot eða nokkurs konar örsögur þar sem íbúar Kristness deila með lesandanum einni minningu eða sögu af skemmtilegu atviki eða eftirminnilegu fólki. Þá hefur bókin að geyma efni úr dagblöðum, tímaritum og bókum auk áður óbirts efnis úr fórum fyrrverandi íbúa svo ekki sé minnst á mikinn fjölda ljósmynda. Gerð er tilraun til að taka saman frásagnir af ýmsu tagi, í máli og myndum og blanda þeim saman þannig að útkoman verði aðgengilegt uppflettirit um viðfangsefnið – bók um upplifanir fólks af lífinu í Kristnesþorpi fyrir íbúa Kristness í fortíð, nútíð og framtíð sem og aðra áhugasama. Ófá ævintýrin leynast í hugum þeirra sem búið hafa í Kristnesi. Hér gefst tækifæri til að skyggnast inn í samfélag sem á sér fáar hliðstæður. Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Sunna Katrín Hreinsdóttir í Lundarskóla

Sunna Katrín sigurvegari

Leitinni að Grenndargralinu 2016 er lokið

TV Newscast Photo Effect: https://www.tuxpi.com/photo-effects/fake-newscast

Grenndargralið er fundið! Sunna Katrín Hreinsdóttir í Lundarskóla fann Gralið áður en tvær klukkustundir voru liðnar frá því að lokaþrautin fór í loftið. Aldrei áður hefur sigurvegari verið jafn snöggur að finna Gralið. Hér er jafnframt um fyrsta sigur Lundarskóla að ræða í Leitinni að Grenndargralinu. Gralið var í vörslu Soffíu Vagnsdóttur höfundar sönglagatextans Zikka zakka þar til Sunna birtist og tók við Gralinu úr höndum Soffíu. Lundarskóli mun því hýsa Gralið næsta árið.

Grenndargralið óskar Sunnu Katrínu, sem og Lundarskóla,  til hamingju með sigurinn.

 

Lokaspretturinn er hafinn!!!!

Grenndargralið

Úrslit ráðast í Leitinni 2016 á föstudaginn

GrenndargraliðLöng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á Gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar föstudaginn 11. nóvember kl. 18:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut nr. 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á Gralið. Það lið sem finnur Gralið sigrar í Leitinni að Grenndargralinu 2016. Sigurvegararnir taka Gralið með sér en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á Gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið.
Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa.

Gangi ykkur vel.

Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Leitarinnar