main image

Grenndargralið skrifar fyrir Norðurland

Grenndargralið og Útgáfufélagið Fótspor hafa komist að samkomulagi um samstarf og mun afraksturinn birtast á síðum Norðurlands. Grenndargralið mun á næstu misserum færa lesendum blaðsins ýmsar gersemar úr heimabyggð í formi fróðleiks og afþreyingar. Grenndargralið hefur áður látið af sér kveða á fjölmiðlamarkaðnum. Á árunum 2013-2015 birti Akureyri Vikublað efni undir merkjum Grenndargralsins með reglulegu millibili og nú tæpum þremur árum síðar tekur Gralið upp þráðinn að nýju.

 

Grenndargralið hlakkar til samstarfsins og að koma sögu og menningu heimabyggðar á framfæri við lesendur á skemmtilegan og lifandi hátt.

 

Fyrsti söguskammturinn frá Grenndargralinu birtist í 3. tölublaði Norðurlands fimmtudaginn 22. febrúar.

Nýútkomnar bækur frá Grenndargralinu

Sigurvegari Leitarinnar að Grenndargralinu árið 2017

Grenndargralið er komið í leitirnar!!!

Grenndargralið er komið í leitirnar. Það var  Halldór Birgir Eydal í Síðuskóla sem fann Gralið. Grenndargralið óskar Halldóri og Síðuskóla til hamingju með sigurinn.

Gralið var við Íslandsklukkuna.

Nánar um fund Gralsins síðar.

Lokaspretturinn er hafinn!!!!!!

Senn lýkur Leitinni að Grenndargralinu 2017

Löng og ströng leit er að baki og þátttakendur hafa staðið sig með mikilli prýði. Framundan er hörð samkeppni milli liðanna sem eftir standa. Nú gildir að vera sem fljótastur að leysa lokaverkefnin sem vísa á Gralið. Endaspretturinn fer fram með eftirfarandi hætti:

Síðasta þrautin birtist á heimasíðu Leitarinnar föstudaginn 11. nóvember kl. 18:00. Þar með hefst kapphlaupið mikla. Ólíkt fyrstu 9 vikunum (þar sem ekki skipti máli hvenær lausnum var skilað) skiptir öllu máli núna að skila lausninni til umsjónarmanns sem fyrst. Þátttakendur verða að meta með hvaða hætti auðveldast sé að koma lausninni til umsjónarmanns á sem stystum tíma.

Ef lausnin við þraut nr. 10 er rétt fá þátttakendur síðasta bókstafinn frá umsjónarmanni. Eftir að hafa fundið út lykilorðið og komið því til umsjónarmanns fá þátttakendur lokavísbendingu sem vísar þeim á Gralið. Það lið sem finnur Gralið sigrar í Leitinni að Grenndargralinu 2017. Sigurvegararnir taka Gralið með sér en láta aðra keppendur ekki vita af því að það sé fundið.

Aðeins þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við öllum þrautunum tíu, fengið bókstafina sem þeim fylgja og fundið lykilorðið fá lokavísbendinguna sem vísar á Gralið.

Kæru þátttakendur.

Þið hafið staðið ykkur vel. Frá því í haust, þegar Leitin hófst, hafa nokkur lið hætt þátttöku. Þið eruð komin alla þessa leið vegna áhuga ykkar og þrautseigju. Nú getur allt gerst. Grenndargralið er handan við hornið.
Með dugnaði ykkar og útsjónarsemi hafið þið sýnt að þið getið leyst erfið verkefni á stuttum tíma. Þið megið nú sem fyrr nýta ykkur alla þá aðstoð sem þið getið fengið t.d. frá mömmu, pabba, ömmu og afa.

Gangi ykkur vel.

Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Leitarinnar

Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út

Bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Vinna við bókina hófst árið 2000 þegar heimildaöflun vegna lokaritgerðar til B.-ed prófs við Kennaraháskóla Íslands fór af stað. Ritgerð var skilað fullunninni vorið 2001 en heimildaöflun hélt áfram til ársins 2004. Þá var gert hlé á vinnunni en unnið áfram með hléum allt til ársins 2016 þegar vinna hófst af fullum krafti aftur. Mikið magn upplýsinga hefur verið safnað saman og er áhersla lögð á sögu sjúklinganna og daglegt líf þeirra.

Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Stuðst er við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin hefur að geyma fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.

Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Grenndargralið gefur út. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Næstsíðasta vika Leitarinnar 2017 farin af stað!

Í 9. þraut eiga þátttakendur að finna tveggja stafa tölur á tveimur stöðum á Akureyri og leggja þær hlið við hlið þannig að út komi fjögurra stafa tala. Í ljós kemur merkilegt ártal í sögu Akureyrar.

Sjón er sögu ríkari.

Elmar Dagur fann Karamellukrukkuna

Leitinni að Karamellukrukkunni er lokið. Það var Elmar Dagur Stefánsson úr Síðuskóla sem fann Krukkuna. Hópur krakka, sem hafði uppfyllt skilyrði til að taka þátt í leitinni, fékk afhenda vísbendingu klukkan 16:00 föstudaginn 13. október. 

Alls 15 krakkar og aðstoðarmenn þeirra lögðu af stað í leiðangurinn í fallegu haustveðri. Vísbendingin, sem var einskonar kort af Akureyri með myndagátum, leiddi þátttakendur og aðstoðarmenn þeirra að Lögmannshlíðarkirkju. Það tók Elmar og aðstoðarfólk hans ekki langan tíma að átta sig á kortinu og myndagátunum. Elmar var kominn með Krukkuna í hendur u.þ.b. 45 mínútum eftir að hópurinn lagði af stað frá Giljaskóla.  Glæsilegur árangur hjá Elmari Degi og aðstoðarfólki hans.

Að launum fyrir sigurinn fær Elmar hamborgaramáltíð og drykki fyrir tvo á Hamborgarafabrikkunni. Aðstandendur Leitarinnar kunna Fabrikkunni bestu þakkir fyrir um leið og þeir óska sigurvegaranum til hamingju. Nú tekur alvaran við því innan fárra vikna hefst kapphlaupið um Grenndargralið!