main image

Akureyringur varð vitni að blóðbaðinu í Batoche

Jón Júlíus Jónsson var fæddur á Akureyri 19. júlí árið 1858, sonur hjónanna Jóns Jónssonar járnsmiðs og Þórunnar Kristjánsdóttur. Jón Júlíus ólst upp í hópi systkina en yngri bróðir hans var hið kunna skáld Kristján Níels Júlíus Jónsson (Káinn). Jón Júlíus upplifði róstusama tíma á uppvaxtarárum sínum á Akureyri. Fjögurra ára gamall varð hann vitni að því þegar langþráður draumur margra samferðamanna hans á Akureyri varð að veruleika þegar bærinn fagnaði kaupstaðarréttindum árið 1862. Hver veit nema Jón litli hafi verið í grenndinni ári síðar þegar frú Vilhelmina Lever verslunarkona á Akureyri kaus fyrst allra kvenna á landinu í sveitarstjórnarkosningum? Á unglingsaldri missti hann móður sína og stuttu síðar (1876) sigldi hann yfir hafið til að hefja nýtt líf í Kanada. Þegar til Vesturheims var komið hóf Jón að starfa við járnbrautarlagningu. Árið 1880 giftist hann Jónínu Kernested frá Gimli. Þau eignuðust fimm börn.

Tæpum áratug eftir að Jón flutti erlendis gerðu indíánar uppreisn gegn yfirráðum hvíta mannsins á svæðum í Kanada þar sem Íslendingar höfðu tekið sér bólfestu. Jón Júlíus skráði sig í 95. herdeildina í Winnipeg sem ásamt öðrum herdeildum var send til að bæla niður uppreisnina. Jón Júlíus hélt ásamt u.þ.b. 20 öðrum Íslendingum á vígvöllinn undir forystu hershöfðingjans Frederick D. Middleton. Jón og herflokkur hans var í hópi þeirra fyrstu sem mættu indíánunum við Fish Creek föstudaginn 24. apríl.

Eftir að hersveitin hafði haldið fimm mílur vegar um morguninn af og til gegnum dálitla skógarrunna, heyrði hún skothríð framundan sér. Voru uppreistarmenn þar þá fyrir og sendu hersveitinni fyrstu kveðju sína. Hvatti Middleton herforingi sveitina þá til öruggrar framgöngu og var þá hlaupið fram all-langa leið. En þar kom, að hún stóð í dæld nokkurri með knédjúpu vatni, en skógar og hæðir umhverfis. Var þar allmargt af Indíánum og gægðust þeir fram undan trjánum og skutu hver í kapp við annan á hersveitina, sem stóð í pollinum, þreytt og móð eftir hlaupin. Engu síðar veitti hún hraustlega viðnám og sendi Indíánum kúlnahríð all-harða inn í skóginn. Stóð orusta þessi í þrjár eða fjórar klukkustundir. Hörfuðu þá Indíánarnir lengra inn í skóginn, en hermennirnir sóttu á eftir þeim með ópi og eggjunarorðum, þangað til herlúðurinn var þeyttur og þeir kallaðir til baka aftur, en þá sóttu Indíánar aftur á eftir þeim. Skeytti hersveitin þeim þá ekki, en færði sig upp úr dældinni og vatninu út á sléttur nokkurar lengra frá skóginum og nam þar staðar, þegar hún var svo langt komin, að kúlur óvinanna náðu henni ekki. Fjórir eða fimm menn féllu en 40 særðust og sumir til ólífis. Enginn Íslendinganna varð sár. (Almanak Ólafs S. Thorgeirsson, 1905, bls. 98-99)

Jón Júlíus og félagar hans dvöldust við Fish Creek í hálfan mánuð í herbúðum. Middleton hershöfðingi beið eftir hríðskotabyssu (Gatling Gun) en von var á henni frá Bandaríkjunum. Hægt var að skjóta 100 skotum á mínútu úr byssunni. Þegar stríðstólið barst skipaði Middleton hermönnum sínum að halda til Batoche í Saskatchewan þar sem Louis Riel, foringi uppreisnarmanna hélt sig. Laugardaginn 9. maí braust út bardagi mikill þar sem munaði um hríðskotabyssu Middleton.  Áfram var barist næstu daga. Úr röðum indíána féllu yfir 60 manns og nálægt 100 manns særðust. Jón Júlíus og félagar sluppu betur úr þessum mikla hildarleik. Átta af mönnum Middletons féllu og 42 særðust. Eftir orustuna við Batoche gáfust margir uppreisnarmenn upp og foringinn Riel var handtekinn þann 15. maí. Nokkrir úr röðum uppreisnarmanna neituðu þó að gefast upp og fór þar fremstur í flokki indíáninn Big Bear (Mistahi-maskwa). Hann gafst þó upp að lokum. Þann 14. júlí kom Jón Júlíus aftur heim til Winnipeg úr þessari miklu svaðilför ásamt öðrum úr her Middleton. Mikil hátíðarhöld brutust út í borginni og var hermönnunum fagnað sem hetjum. Íslendingar á svæðinu voru með sérstaka samkomu til heiðurs samlöndum sínum sem tóku þátt í leiðangrinum. Við það tilefni hélt Jón Júlíus ræðu þar sem hann deildi reynslu sinni af stríðsátökunum með samkomugestum. Af foringja uppreisnarmanna, Louis Riel, er það það að segja að hann var fundinn sekur um uppreist og dæmdur til hengingar.  

Jón Júlíus Jónsson lést að heimili dóttur sinnar í Winnipeg þann 9. september árið 1933. Hann var 75 ára gamall.

Flutti Haraldur frá Espihóli Englandsdrottningu yfir Atlantshafið?

Maður er nefndur Haraldur Sigurðsson. Hann fæddist á Espihóli í Eyjafjarðarsveit þann 8. nóvember árið 1843. Faðir hans var Sigurður Sigurðsson timbursmiður, móðir hans hét Sigríður Hallgrímsdóttir. Um miðja öldina fluttu hjónin til Akureyrar þar sem þau bjuggu í allmörg ár ásamt þremur sonum og þremur dætrum.

Haraldur var mikill ævintýramaður. Hann sigldi utan um tvítugt og var meira og minna á hafi úti næstu 28 árin. Árið 1886 dvaldist hann í Mexíkó þar sem hann tók þátt í að reka gripahjörð alla leið norður til Manitoba-fylkis. Svo skemmtilega vildi til að þegar ferðalaginu lauk í Kanada hitti hann bróður sinn Sigurð sem hann hafði ekki séð frá því hann sigldi frá Akureyri. Haraldur settist að í smábænum Kenora ásamt eiginkonu sinni og syni. Næstu áratugina smíðaði Haraldur 30 stór skip auk fjölda smærri báta. Hann tók þátt í kappsiglingum og var sigursæll á því sviði.

Árið 1864 var Haraldur háseti á dönsku freygátunni Jylland sem smíðuð hafði verið fjórum árum áður. Hann tók þátt í frægri sjóorustu hennar við eyna Helgoland í Norðursjó í stríði Dana við Prússland og Austurríki þar sem Danir sigruðu á eftirminnilegan hátt.  

Í tilefni af 90 ára afmæli sínu árið 1933 fór Haraldur yfir farinn veg og rifjaði upp eftirminnileg augnablik frá langri ævi. Auk orustunnar við Helgoland minntist hann siglingar sem hann fór með Jylland þann 7. mars árið 1863, fyrir nákvæmlega 155 árum. Siglt var frá Danmörku til Englands. Um borð, ásamt Haraldi háseta frá Espihóli, var ung dönsk prinsessa, Alexandra að nafni. Hún var á leið til London að hitta tilvonandi eiginmann sinn, Edward VII prins af Wales. Þau giftust þremur dögum síðar og að nokkrum árum liðnum var Alexandra orðin Englandsdrottning. 

Heimildum ber ekki saman með hvaða skipi Alexandra fór frá Danmörku þennan örlagaríka dag fyrir 155 árum. Ólíkt frásögn Haraldar virðist sem mörgum heimildum á veraldarvefnum beri saman um að fleyið sem flutti tilvonandi drottningu hafi ekki verið danska freygátan Jylland heldur enska konungssnekkjan Victoria and Albert II. Enginn vafi leikur þó á því að Jylland flutti konungsborna manneskju frá Danmörku árið 1874 og það til Íslands þegar Kristján 9. Danakonungur kom í heimsókn í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Hann hafði skjal meðferðis.

Ef þú getur stutt frásögn Haraldar um siglingu með dönsku prinsessunni Alexöndru um borð í Jylland árið 1863 máttu gjarnan hafa samband við Grenndargralið. Skrifa má athugasemd hérna við greinina, senda línu á facebook-síðu Grenndargralsins eða póst á póstfangið brynjar@akmennt.is.

 

Eftirfarandi facebook-færsla frá Nelson Gerrard birtist í kjölfar greinarinnar að ofan.

Haraldur became a ship Wright in Keewatin, Ontario, and built many large boats that plied the waters of the Lake of the Woods. He married late in life and had one adopted son, Edward Sigurdson, whose widow, Elizabeth, I visited in the 1970’s. They had an adopted daughter, who I believe is still living in Winnipeg. Haraldur had two brothers in North America, Sigtryggur, who was also a sailor for many years and settled in Dakota, and Sigurdur, last of Blaine, Washington. These brothers had two sisters who went to Denmark. One later moved to Norway, where she married and had family. The father of these siblings was Sigurdur Sigurdsson ‘timburmadur’ of Akureyri, whose brother Jónas was the father of Sigtryggur Jonasson and those siblings, most of whom settled in Canada. Another brother was Sigtryggur ‘Sterki’ of Husavik. They were the children of Sigurdur Jonsson, a farmer and gifted poet at Nedstaland in Oxnadalur, and his wife, Ingibjorg Benediktsdottir, whose mother was Gudrun Jonasdottir from Hvassafell, aunt and foster mother to the poet Jonas Hallgrimsson.

Grenndargralið 10 ára – stiklað á stóru í sögunni

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli í ár. Haustið 2008 fór Giljaskóli á Akureyri af stað með tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum í 8.-10. bekk. Tilgangurinn með verkefninu var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra utan skólatíma. Boltinn var farinn að rúlla. Síðuskóli tók þátt í verkefninu haustið 2009 ásamt Giljaskóla. Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010, Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli haustið 2011 og að lokum Naustaskóli haustið 2012. Haustið 2013 var fyrirkomulagi Leitarinnar breytt þegar boðið var upp á hana sem valgrein. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðastliðinn áratug og hefur Grenndargralið fært út kvíarnar jafnt og þétt á tímabilinu. Fleiri egg eru nú í sögu- og menningarkörfunni og fjölbreytnin eykst ár frá ári. Allt byrjaði þetta þó með leit grunnskólanemenda að hinu svokallaða Grenndargrali.

Leitin að Grenndargralinu

Leitin að Grenndargralinu hófst sem þróunarverkefni á unglingastigi með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð. Upphaf verkefnisins má rekja til Brynjars Karls Óttarssonar kennara og reynslu hans af vinnu með börnum og unglingum í samfélagsgreinum í grunnskóla. Sjálfur hafði hann ekki lagt sérstaka áherslu á grenndarkennslu áður en til nýja verkefnisins kom enda bæði skort tíma og kennsluefni við hæfi. Fyrir vikið var grenndarvitund nemenda við lok grunnskólanáms í mörgum tilfellum ábótavant að hans mati. Þá vantaði áþreifanlegri tengingu samfélagsfræðinnar við hið daglega líf nemenda og of lítið lagt upp úr því að færa kennsluna og námið út fyrir sjálfa kennslustofuna (Learning by doing e. John Dewey). Í Aðalnámskrá grunnskóla segir orðrétt: Leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl (bls. 204). Vissulega má ná slíkum markmiðum fram að einhverju leyti innan kennslustofunnar. Þau öðlast þó fyrst líf þegar viðfangsefnið er fært út fyrir hana, á vettvang atburðanna sem nemendur læra um hverju sinni. Með vangaveltur sem þessar hóf Brynjar undirbúningsvinnu að verkefninu sumarið 2008. Fór af stað ákveðin hugstormun sem miðaðist að því að svara nokkrum lykilspurningum. Ein þeirra var þessi: Hvaða leiðir eru færar við að auka áherslu á grenndarkennslu með virkri þátttöku nemenda og það á vettvangi þeirra sögulegu atburða sem kennslan nær yfir? Niðurstaðan varð Leitin að Grenndargralinu.

Hvað er Grenndargralið?

Annars vegar vísar heitið í þann fjársjóð sem leynist í heimabyggð í formi ævintýraríkrar sögu og fjölbreyttrar menningar. Hins vegar er um bikar að ræða sem þátttakendur Leitarinnar að Grenndargralinu keppast við að finna en hann er staðsettur á Akureyri.

Orðið er samsett, sett saman úr orðunum grennd og gral. Grennd er kvenkynsorð og hefur sömu merkingu og orðin nágrenni og/eða umhverfi. Orðið gral er ýmist notað í karlkyni eða hvorugkyni. Upphaf þess má rekja til notkunar á enska orðinu grail sem þýðir kaleikur og/eða heilagur bikar.

Grenndargralið dregur fram í sviðsljósið leyndar gersemar í sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt. Markmið þeirra sem taka þátt í Leitinni að Grenndargralinu er að finna Gralið. Þátttakendur þurfa að leysa hin og þessi verkefni, ráðgátur og þrautir. Með því öðlast þeir rétt til að leita að Gralinu sem er falið innan bæjarmarkanna. Verkefnið og nafn bikarsins eru tilvísun í hina klassísku goðsögu um hið heilaga gral Krists. Segir sagan að Jesús hafi drukkið af gralinu þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum.

Öldum saman hafa menn leitað gralsins. Ýmsar áhugaverðar kenningar um dvalarstað þess hafa verið settar fram t.d. í bókum og kvikmyndum. Þrátt fyrir mikla leit ævintýramanna víða um heim gegnum aldirnar hefur hvorki tekist að draga gralið fram í dagsljósið né sanna tilvist þess. Er sagan um hið heilaga gral uppspuni frá rótum eða leynist það einhversstaðar og bíður þess að líta dagsins ljós? Erfitt er um slíkt að spá. Grenndargralið er hins vegar enginn lygasaga. Það leynist á vísum stað í heimabyggð og bíður þess að ungir ævintýrarmenn leiti það uppi.

Umfang Leitarinnar vex

Sumarið 2010 urðu tímamót í sögu Leitarinnar. Þrennt kemur þar til. Við lok skólaárs var tilkynnt um viðurkenningu skólanefndar Akureyrarbæjar til handa Brynjari fyrir metnaðarfulla framkvæmd á verkefninu eins og segir í úrskurði dómnefndar. Ennfremur segir þar: Brynjar hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkefnið um Grenndargralið sem hann hefur fengið nemendur til að taka þátt í utan skólatíma. Í verkefninu felst mikil fræðsla m.a. grenndarfræðsla og saga. Leitin að grenndargralinu er byggt upp sem nokkurs konar ratleikur og er allur bærinn undir. Verkefni sem þessi efla skapandi og gagnrýna hugsun hjá nemendum auk þess sem reynir á þolinmæði og úthald þar sem leikurinn tekur nokkrar vikur. Frábært og metnaðarfullt framtak hjá Brynjari. Þá hlaut verkefnið styrk frá Sprotasjóði en sjóðurinn er á vegum Menntamálaráðuneytisins. Hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Styrkurinn var mikilvæg vítamínssprauta á þessum tímapunkti sem og viðurkenningin þegar staðið var frammi fyrir ákvörðun um að ýmist halda áfram þróun verkefnsins eða draga saman seglin. Að lokum var heimasíða tekin í notkun (www.grenndargral.is) en ekki þarf að fjölyrða um þá möguleika sem hún hefur fært umsjónarmönnum verkefnisins við þróun þess.

Árið 2011 hófst nýr kafli í sögu Grenndargralsins með greinaskrifum grunnskólanemenda. Meira um það seinna.

Kvikmyndahús nostalgíunördanna – Af hverju ekki?

Er aðili þarna úti í þörf fyrir að stuðla að menningarsköpun í heimabyggð og kannski upplifa vott af ævintýramennsku í leiðinni? Ef svo, ætla ég að gera honum tilboð sem hann getur ekki hafnað. Af hverju opnar hann ekki þriðja kvikmyndahúsið á Akureyri? Eins og tvö sé ekki nóg? Jú, kannski þar sem nýjar myndir eru sýndar. En hvað með að grafa upp gamlar gersemar úr kvikmyndaheiminum, Akureyringum og nærsveitungum komnum af léttasta skeiði til yndisauka og dægrastyttingar? Jújú, stundum er gamalt ekki kúl, ekki líklegt til vinsælda o.s.frv. Til dæmis gömul sjónvarpstæki. Túbusjónvörp. Þau eru ekki líkleg til að slá í gegn á markaðnum ef einhverjum skyldi detta í hug að koma þeim aftur í sölu. Ekki strax. Mögulega eftir nokkra áratugi þegar þau komast á retroaldurinn – gömul en ekki ævaforn. Eins er með bíómyndir. Og víst er að fjöldi mynda sem hefur náð retrostiginu er nægur til að fullnægja þörfinni svo ekki sé talað um eldri myndir í bland sem fengið hafa enn virðulegri sess. Retromyndir þar sem saxófónn og sítt að aftan leika sitt hlutverk og klassískar myndir sem flytja áhorfandann aftur til daga „litlausu“ Hollywood-stjörnunnar með sinn sterka karakter. Myndir sem hreyfa við fólki kynslóð eftir kynslóð. Myndir sem draga fram hughrif bernskuáranna, minningar frá unglingsárunum og kveikja mögulega í gömlum glæðum. Tvö kvikmyndahús í bænum tryggja mikið og fjölbreytt úrval bíómynda. Við fögnum því. Þau gera vel í því að bjóða upp á nýjustu kvikmyndirnar. Nútímahetjur hvíta tjaldsins höfða þó misjafnlega til þeirra sem ólust upp við Monroe, Redford og Weaver. Að koma sér fyrir í sófanum með snakk og endurnýja kynnin við hetjur fortíðar, jafnvel hafa gamlan vin í mat á undan, verður því gjarnan fyrir valinu á kostnað bíóferðar. Kostnaði við kvikmyndahús „nostalgíunördanna“  mætti halda í lágmarki með hæfilegri yfirbyggingu og takmarkaðri þjónustu. Íburðurinn þarf ekki að vera svo mikill þegar mann langar bara að setjast niður í rólegheitum með popp og Kók og gleyma sér með Tom Cruise og Kelly McGillis í háloftunum.

Stríðsminjar við Hlíðarfjall

Þó rúm 70 ár séu liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar berast enn fregnir af fundum stríðsminja vítt og breitt um landið. Vegna frostlyftingar grafa sprengjur og skothylki sér leið upp úr jörðu og bíða þess að göngu- og útivistarfólk finni þessa litlu minnisvarða. Einn slíkur fundur átti sér stað síðastliðið haust við rætur Hlíðarfjalls ofan Akureyrar. Í einni af mörgum menningar- og sögugöngum Grenndargralsins í heimabyggð var gengið fram á hina ýmsu smámuni frá setuliðinu. Á tiltölulega litlum bletti innan svæðis sem merkt er númer 2 á myndinni hér til hliðar blöstu m.a. við hátt á annað hundrað skothylkja og leifar af tveimur sprengjum. Grenndargralið hafði umsvifalaust samband við Hörð Geirsson safnvörð ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri og áhugamann um seinni heimsstyrjöldina. Hörður gat sér til út frá myndum að um væri að ræða breskar tveggja tommu sprengjuvörpusprengjur af gerðinnni Mortar. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var upplýst um fundinn sem staðfesti eftir að hafa skoðað myndir frá vettvangi að engin hætta stafaði af sprengjuleifunum. Að beiðni Landhelgisgæslunnar fóru útsendarar Grenndargralsins, þeir Brynjar Karl Óttarsson og Arnar Birgir Ólafsson, á vettvang til að sækja sprengjuleifarnar og eru þær nú í vörslu Lögreglunnar.

Líklegt er að svæðið sé að miklu leyti ókannað þar sem lítið er um mannaferðir á þessum slóðum. Sögugrúskararnir tveir, Bombu-Binni og Atóm-Addi, hugsa sér gott til glóðarinnar á vordögum þegar frost fer úr jörðu. Þó skal aðgát höfð í nærveru sprengjuleifa.

„Stöku herjeppar í spássitúr“

Dvöl erlendra hermanna hér á landi hefur orðið mörgum rithöfundinum yrkisefni allt frá lokum seinna stríðs. Árið 2015 gaf Grenndargralið út bókina Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur. Í bókinni rekur Hildur lífshlaup ömmu sinnar Helgu Guðrúnar Sigurðardóttur en hún fæddist í Teigi í Eyjafjarðarsveit árið 1927. Helga Guðrún var dóttir Sigurðar Hólm Jónssonar frá Núpufelli og Helgu Pálmadóttur frá Teigi. Tvöfaldur móðurmissir, fósturvist og aðskilnaður frá fjölskyldu settu sitt mark á æsku Helgu. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur.

Konur eru í aðalhlutverki frásagnarinnar sem spannar rétt um hundrað ár. Sagan hefst um aldamótin 1900 í torfbæ í Eyjafirði en lýkur á Akureyri árið 2009. Hildur dregur upp svipmynd af uppvaxtarskilyrðum alþýðunnar á millistríðsárunum og tíðarandanum á eftirstríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun. Hér skal gripið niður í einn kafla bókarinnar þar sem fjallað er um Akureyri á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og samskipti heimamanna við setuliðið.

Sambúðin við heimamenn gekk brösuglega til að byrja með. Í upphafi hernámsins urðu tvær stúlkur fyrir árás breskra hermanna þar sem þær voru á heimleið upp Oddeyrargötuna. Eftir það voru bresku dátarnir settir í útgöngubann og urðu að vera komnir inn fyrir kl. 21. Fóru akureyskar meyjar í ,,ástandið” – tóku upp daður og jafnvel ástarsambönd við breska dáta? Mikið var skrafað um slíka ósiðlega hegðun í bænum og víst bera kirkjubækur vitni um að einhver börn hermanna hafi fæðst á Akureyri á hernámsárunum. Í blöðin var skrifað um léttúðardrósir og þjóðarósóma. Kannski komu íslenskar stúlkur Bretunum á óvart? Einn hermaður lét hafa eftir sér að þær væru framúrskarandi vel klæddar og afar frábrugðnar eskimóakonunum sem hann og félagar hans áttu von á!

Þrátt fyrir skömmtunarseðla og skort af ýmsu tagi gáfust tækifæri til skemmtunar. Harmonikkuböll voru algeng en félagsheimili eins og þekktust í sveitum fóru að taka á sig nýja mynd í þéttbýlinu. Nýja Bíó sýndi kvikmyndir frá Hollywood nokkrum sinnum í viku og verslanir bæjarins fengu annað slagið munaðarvöru sem slegist var um.

Hlátrasköllin úr herbergi ungu konunnar í Oddeyrargötunni heyrast út á götu. Henni hefur tekist að lauma útvarpinu úr eldhúsinu upp á herbergi og nú söngla hún og Bogga með Bing Crosby milli þess sem þær veltast um af hlátri yfir öllu og engu. Come on hear! Come on hear! Alexander’s ragtime band! Silkisokkarnir liggja þvert yfir dívaninn – langþráðir. Hún fékk sokkana frá pabba sínum í sautján ára afmælisgjöf. Hún hefði svo sem getað safnað sér fyrir þeim sjálf en kaupið er ekki hátt hjá Sigtryggi og Jóni auk þess sem sokkarnir kostuðu 5,50 krónur! Þeir voru ekkert að gefa eftir í dömudeild London-verslunarinnar í miðbæ Akureyrar. Eftir norðanáhlaup dagana eftir áramót er komin sunnanþíða. Óvænt tækifæri gefst til að viðra sokkana með Boggu vinkonu. Vegfarendur þennan janúardag 1944 hafa mögulega rekist á tvær vinkonur sem ganga dömulega niður Oddagötuna niður í miðbæ til að skoða í glugga meðan á stuttri dagskímunni stendur. Ferðin hefur margskonar tilgang. Ekki síst er þetta liður í tilveru ungs fólks á Akureyri að spássera örlítið í miðbænum, nikka til kunningja og kannski taka vini á tal. Bílarnir keyra löturhægt í gegnum miðbæinn, hring eftir hring. Ford, Volvo, Willys og stöku herjeppar í spássitúr. Á leiðinni heim krækja vinkonurnar saman olnbogunum og halda í Sniðgötuna í tíu dropa. Á tröppunum við Sniðgötu þegar stúlkurnar eru um það bil að ganga inn getur unga konan ekki stillt sig. Hún beygir sig niður og strýkur með fingrunum yfir annan fótlegginn. Silkisokkar, þvílík gæði!

Grenndargralið skrifar fyrir Norðurland

Grenndargralið og Útgáfufélagið Fótspor hafa komist að samkomulagi um samstarf og mun afraksturinn birtast á síðum Norðurlands. Grenndargralið mun á næstu misserum færa lesendum blaðsins ýmsar gersemar úr heimabyggð í formi fróðleiks og afþreyingar. Grenndargralið hefur áður látið af sér kveða á fjölmiðlamarkaðnum. Á árunum 2013-2015 birti Akureyri Vikublað efni undir merkjum Grenndargralsins með reglulegu millibili og nú tæpum þremur árum síðar tekur Gralið upp þráðinn að nýju.

 

Grenndargralið hlakkar til samstarfsins og að koma sögu og menningu heimabyggðar á framfæri við lesendur á skemmtilegan og lifandi hátt.

 

Fyrsti söguskammturinn frá Grenndargralinu birtist í 3. tölublaði Norðurlands fimmtudaginn 22. febrúar.

Nýútkomnar bækur frá Grenndargralinu

Sigurvegari Leitarinnar að Grenndargralinu árið 2017

Grenndargralið er komið í leitirnar!!!

Grenndargralið er komið í leitirnar. Það var  Halldór Birgir Eydal í Síðuskóla sem fann Gralið. Grenndargralið óskar Halldóri og Síðuskóla til hamingju með sigurinn.

Gralið var við Íslandsklukkuna.

Nánar um fund Gralsins síðar.