main image

Krukkan fundin – Leitin 2016 hálfnuð

krukkan-2016Sigrún María Engilbertsdóttir er handhafi Karamellukrukkunnar 2016. Þetta er annað árið í röð sem Sigrún finnur Krukkuna góðu. Með Sigrúnu á myndinni er frændi hennar Kristján Rúnar sem aðstoðaði frænku sína við leitina. Kristján sigraði í Leitinni að Grenndargralinu árið 2015 og hefur jafnframt unnið Karamellukrukkuna.

Grenndargralið óskar Sigrúnu Maríu til hamingju með sigurinn. Hún fær ísveislu að launum fyrir góðan árangur í boði ísbúðarinnar Akureyri.

Eins og ávallt markar leitin að Karamellukrukkunni tímamót í Leitinni að Grenndargralinu. Leitin er nú hálfnuð; fimm þrautir að baki, fimm þrautir eftir.Ísbúðin Akureyri

Leitin að Karamellukrukkunni

Nú þegar Leitin að Grenndargralinu 2016 er að verða hálfnuð er við hæfi að hita upp fyrir lokaátökin. Það gerum við með því að leita að Karamellukrukkunni.

Þeir sem skila inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst (fyrir föstudaginn 14. október kl. 12:00) öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu.

Hvað er í Karamellukrukkunni? Hvar er hún? Hverjir finna krukkuna og hljóta þann óvænta glaðning sem hún inniheldur?

Vísbending, sem leiðir til fundar Karamellukrukkunnar, verður afhend þátttakendum föstudaginn 14. október í stofu 304 í Giljaskóla kl. 16:00.

Leitin að Grenndargralinu 2016 er hafin!

Sem fyrr eru það nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar sem freista þess að finna Gralið. Fyrstu ár Leitarinnar var hún viðbót við hefðbundið nám og stóð þannig fyrir utan hefðbundinn vinnuramma nemenda. Leitin er nú komin í hóp valgreina á unglingastigi og verður því metin sem slík. Öllum krökkum í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar er hins vegar velkomið að taka þátt, ekki síður þeim sem eru ekki með Leitina sem valgrein. Allar nánari upplýsingar um Leitina má finna á fésbókarsíðu og heimasíðu Grenndargralsins (www.grenndargral.is ).

Framundan er löng og ströng leit. Grenndargralið vill hvetja foreldra og aðra aðstandendur þátttakenda í Leitinni til að aðstoða þá við úrvinnslu þrautanna. Leitin er kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur og vini að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Brynjar Karl Óttarsson

verkefnisstjóri Grenndargralsins

Níunda Leitin að hefjast – allir geta tekið þátt

Þátttakendur í Leitinni árið2015 Leitin að Grenndargralinu er valgrein fyrir nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar. Full ástæða er til að minna á að Leitin er engu að síður í boði fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Allir geta tekið þátt. Aðeins þeir sem skráðir eru í valgreinina hafa rétt til að leita að Gralinu í lokin, þ.e. leysa lokavísbendinguna og fara á staðinn þar sem Gralið er falið. Aðrir ljúka keppni þegar þeir hafa ráðið lokavísbendinguna.

Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

 

Nokkur praktísk atriði vegna Leitarinnar 2016:

 • Leitin að Grenndargralinu er valgrein í grunnskólum Akureyrar (8. – 10. bekkur). Allir mega taka þátt, líka þeir sem ekki völdu Leitina sem valgrein.
 • Ein þraut á viku í 10 vikur. Þrautirnar birtist á föstudögum á www.grenndargral.is undir liðnum Leitin að Grenndargralinu efst á forsíðunni.
 • Lausnum  er skilað til umsjónarmanns með tölvupósti (brynjar@akmennt.is).
 • Þátttakendur  fá bókstaf fyrir hverja rétta lausn. Þeir safna saman bókstöfum. Eftir 10 vikur reyna keppendur að finna hvert lykilorðið er með því að raða þeim saman.
 • Keppendur láta umsjónarmann vita þegar lykilorðið er fundið. Þá hefst baráttan um að finna Gralið. Keppendur fá lokavísbendingu sem vísar á Gralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær.
 • Grenndargralið er falið einhvers staðar á Akureyri.
 • Farsælast er að leysa þrautirnar jafnt og þétt. Leyfilegt er þó að skila lausnum inn síðar en að viku liðinni. Þá má einnig skila inn lausnum við fleiri en einni þraut samtímis.
 • Hægt er að hefja leik hvenær sem er eftir að Leit hefst.
 • Þeir sem klára fyrstu 5 þrautirnar og skila inn réttum úrlausnum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að Karamellukrukkunni. Hún er falin innan bæjarmarkanna og þeir sem finna hana eignast hana og innihald hennar.
 • Aðrir en nemendur í 8. -10. bekk mega taka þátt með því að leysa þrautirnar. Þegar kemur að endalokunum eru það eingöngu nemendur á unglingastigi sem mega freista þess að finna Gralið.
 • Lokamarkmið: Verða fyrstur til að finna Grenndargralið og fá það til varðveislu í eitt ár.

Líf íbúa í Kristnesþorpi

Bókin um líf íbúa í Kristnesþorpi verður fáanleg hjá útgefanda og í nokkrum vel völdum bókabúðum fyrir jólin. Verð mun birtast svo fljótt sem kostnaður samfara útgáfu bókarinnar liggur fyrir og mun verðið taka mið af því. Þrír verðflokkar verða í boði:

Líf íbúa í Kristnesþorpi

* hefðbundin útgáfa frá útgefanda

* hefðbundin útgáfa úr bókabúð

* sérstök útgáfa frá útgefanda

Sérstaka útgáfu (sjá mynd) af bókinni verður einungis hægt að nálgast hjá útgefanda.

 

Til að panta eintak/eintök af sérstakri útgáfu má senda línu á póstfangið brynjar@akmennt.is eða hringja í síma 821 5948. Hægt er að panta núna.

 

Leitin að Grenndargralinu 2016

Leitin 2016

Leitin að Grenndargralinu hefst föstudaginn 9. september. Nánari upplýsingar síðar.

Skýrsla Giljaskólaleiðarinnar komin út

Undanfarin ár hafa nokkrir íslenskukennarar á unglingastigi í Giljaskóla unnið eftir hugmyndafræði sem gengur undir nafninu Giljaskólaleiðin. Stoðirnar eru þrjár og einkenna þær að miklu leyti þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í íslensku frá 8. bekk og þar til grunnskólagöngu lýkur. Áherslan er á framsögn, lestur og ritun í gegnum raunveruleg, merkingarbær viðfangsefni sem endurspegla veruleikann eins og hann blasir við utan veggja skólans. Reynt er eftir fremsta megni að koma afurðum nemenda, hvort sem þær er í ræðu eða riti, fyrir augu og eyru almennings. Út er komin samantekt sem hefur að geyma áherslur Giljaskólaleiðarinnar. Auk sérstakrar umfjöllunar um stoðirnar þrjár;  framsögn, lestur og ritun er fjallað um samspil þeirra og grunnþátta menntunar eins og þeir birtast í aðalnámskrá.  Boðið er upp á sýnishorn af verkefnislýsingum Giljaskólaleiðarinnar, leiðir skoðaðar við námsmat og vöngum velt yfir hvað framtíðin ber í skauti sér. Grenndargralið gefur út.

Ég og hljómborðið mitt

Árið 1985 fékk ég ósk mína uppfyllta. Ég eignaðist rafmagnshljómborð. Mig dreymdi um að verða rokkstjarna, komast á samning hjá erlendu plötufyrirtæki og trylla lýðinn. Ég og hljómborðið mitt. Við vorum eitt. Hljómborðið, sem er af gerðinni Technics SX – K100, hefur fylgt mér í rúm 30 ár og allan þann tíma haldið tryggð við heimabyggð sína þó eigandinn hafi hleypt heimdraganum um tíma. Nú þegar allar tilraunir til heimsfrægðar eru sennilega fullreyndar og aðrir meðlimir fjölskyldunnar orðnir þreyttir á langlundargeði eigandans í garð helgigripsins er kominn tími til að kveðja. Hljómborðið skal fara. Mig langar í nokkrum fátæklegum orðum að minnast hljómborðsins míns nú þegar senn líður að kveðjustund.

Sem ungur drengur í Eyjafirði átti ég mér tvo drauma. Að verða atvinnumaður í fótbolta og slá í gegn í rokkhljómsveit. Ég æfði mig reglulega til að ná settu marki, ekkert verður af mér tekið með það. Út að spila fótbolta – inn að spila á innanstokksmuni. Þannig gekk þetta fyrir sig. Ég veit ekki hversu mikið foreldrar mínir studdu mig í rokkinu eftir  alla ónýtu badmintonspaðana og beygluðu pottalokin. Svo ekki sé nú minnst á hávaðann sem af þessu hlaust. Ég held reyndar að mamma og pabbi hafi séð fegurðina í þessu öllu saman því þau voru bæði mjög tónelsk. Einn daginn spurðu þau mig hvort mig langaði til að læra á hljóðfæri. Ég hélt það nú. Ég vildi læra á hljóðfæri, verða undrabarn og slá í gegn með rokkhljómsveit. Þau voru reiðubúin að kaupa fyrir mig hljóðfæri og greiða fyrir tónlistarnám. Hljómborð varð fyrir valinu. Pabbi hafði komist á snoðir um notað hljómborð til sölu. Ég sá fyrir mér rafmagnshljómborð með óendanlega mörgum tökkum og trommuheila eins og Nick Rhodes í Duran Duran átti. Mamma og pabbi buðust til að fara með mér til Akureyrar daginn eftir til að heimsækja eigandann og skoða hljóðfærið. Var þetta kannski hljómborð sem Baraflokkurinn var hættur að nota? Var kannski I don‘t like your style samið á hljómborðið? Vá hvað ég  var spenntur. Pabbi, sem átti það nú til að vera svolítið stríðinn, upplýsti loks að eigandinn væri kona á áttræðisaldri, búsett á Akureyri. „Já einmitt pabbi.“ En í þetta skiptið var pabbi ekki að stríða. Ég varð eitt stórt spurningamerki en sem betur fer tók ég tíðindunum bara vel. Eiginlega fannst mér tilhugsunin um að kaupa hljóðfæri af öldruðum rokkara með reynslu úr bransanum bara svolítið spennandi. Fljótlega fékk ég  að vita að aldraði rokkarinn var Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, húsfreyja í Hólshúsum í Eyjafjarðarsveit til margra ára. Ég kannaðist vel við Sigríði. Hún var m.a. kórstjóri og organisti við Grundarkirkju á þessum tíma. Síðar átti hún eftir að kenna mér tónmennt. Nú runnu á mig tvær grímur. Var ég að fara, tíu ára gamall gutti, í heimsókn til kórstjóra á áttræðisaldri í fylgd foreldra til að kaupa ævafornt pípuorgel úr kirkju? Úff, vandræðalegt. Allar slíkar vangaveltur féllu þó í skuggann á þeim tilfinningum sem bærðust um í brjósti mér.  Ég var fullur eftirvæntingar. Þó tónlistarsmekkur okkar Sigríðar hafi verið ólíkur bar ég mikla virðingu fyrir henni. Hún var jú snillingur á píanó og bjó yfir hæfileikum til að verða rokkstjarna, eitthvað sem ég hafði ekki þó það stæði allt til bóta. Ekki var það til að draga úr mér kjarkinn að nú myndi ég loksins hitta eiginmann Sigríðar. Í mínum huga var hann lifandi goðsögn í knattspyrnuheiminum. Samt hafði ég hvorki spilað með honum né séð hann spila. Gullaldarár hans á knattspyrnuvellinum voru millistríðsárin. Það sem meira var, ég hafði aldri heyrt um knattspyrnugoðið Helga Schiöth annars staðar en frá pabba en hann rifjaði reglulega upp sögur af afrekum hans á knattspyrnuvellinum. „Einhver allra besti fótboltamaður Íslands í gamla daga.“ Þegar fór að síga á seinni hluta ferilsins hafði Helgi svo farið að æfa með pabba og öðrum sveitapiltum í Eyjafirði . Heimsóknin til þeirra hjóna gekk vel. Ég skoðaði hljómborðið og skemmst er frá því að segja að ég féll strax fyrir því. Ekki gamalt pípuorgel heldur nýtt og svo gott sem ónotað rafmagnshljómborð með mörgum tökkum og trommuheila. Gengið var frá kaupunum á staðnum. Allar áhyggjur af vandræðalegri samverustund með fólki af allt annarri kynslóð voru óþarfar. Ég spjallaði um tónlist við Sigríði og fótbolta við Helga á meðan ég gæddi mér á heimabökuðu brauði.

Hljómborðinu var komið fyrir á gömlu saumavélaborði sem mamma fékk í fermingargjöf. Við eyddum ófáum stundunum saman, ég og hljómborðið mitt, við píanóglamur og ímyndaða heimsfrægð áður en alvaran tók við. Nú var komið að því sem lagt var af stað með í upphafi, að læra að spila á gripinn. Ég hóf píanónám hjá Oliver Kentish. Oliver hafði  flutt frá Englandi til Íslands nokkrum árum áður og starfað um nokkurra ára skeið á Akureyri. Námið fór fram í Hrafngilsskóla. Rafmagnsorgelið sem ég lærði á var frá miðöldum (að mér fannst) sem var nú bara fyndið. Ég man að mér fannst ekki skemmtilegt að læra nóturnar. Til hvers að læra nótur? Ekki spilaði Nick Rhodes eftir nótum eða aðrir rokkarar yfirhöfuð. Ég ætlaði ekki að verða fyrsti rokkarinn til að mæta í glysgallanum upp á svið, með sítt að aftan og spila eftir nótum. Þegar á reyndi var ég einfaldlega ekki tilbúinn að eyða þeim tíma sem til þurfti í æfingar ólíkt því sem átti við um fótboltann. Þar mætti ég á allar þær æfingar sem stóðu mér til boða. Í tónlistinni vildi ég bara leika mér á nýja leikfangið mitt og verða svo rokkstjarna. Ekkert að flækja málin. Mér líkaði afar vel við Oliver og hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að hvetja mig áfram. Það dugði bara ekki til. Ég þraukaði í tvo mánuði. Annars man ég ekki mikið eftir kennslustundunum sem ég sat með Oliver. Ég man þó að hann var aðdáandi Sheffield Wednesday í enska boltanum. Sennilega hefur mér leiðst eitthvað í einni kennslustundinni og náð honum á spjall. Þrátt fyrir þessa sneypuför í píanónáminu lifði draumurinn góðu lífi. Áfram var fallega Technics-hljómborðið mitt ofan á saumvélinni og ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að æfa sig án nótna. Heimsfrægð var enn möguleiki.

Liðu nú tvö ár. Bekkjarfélagi minn var farinn að læra á gítar og vinur okkar, nokkrum árum yngri, var  farinn að berja húðir þegar þarna var komið sögu. Árshátíð skólans var framundan í félagsheimilinu Laugarborg og við ákváðum að setja saman band. Við hófum strax leit að bassaleikara og hún bar fljótlega árangur. Eftir að hafa orðið okkur út um æfingasvæði hófumst við handa við að undirbúa stærsta tónlistarviðburð í sögu Laugarborgar. Hljómborðið mitt var nú komið á þann stað sem ég hafði alla tíð ætlað því, innan um rafmagnsgítar, bassa, trommur, hljóðnema og magnara. Engar nótur. Kvikmyndin La Bamba, og ekki síst tónlistin úr myndinni, var vinsæl um þetta leyti og bar lagalistinn okkar þess greinileg merki. Æfingar gengu vel enda valinn maður í hverju rúmi. Við vorum svoooooo góðir. Það var aðeins tímaspursmál hvenær við kæmumst inn á vinsældarlista Rásar 2. Það skipti líka miklu máli að hafa gott og grípandi nafn á hljómsveitinni. Hún fékk því nafnið Ms. Pac-Man eftir vinsælum tölvuleik. Svo kom að tónleikunum. Þarna stóðum við saman uppi á sviði, ég og hljómborðið mitt, ásamt vinum mínum í Ms. Pac-Man fyrir framan fullan sal af fólki. Nokkrar hræður á dansgólfinu. Í hálfa klukkustund eða svo leið mér eins og rokkstjörnu svo segja má að draumurinn hafi ræst. Ég hefði aldrei getað þetta án Technics SX – K100 hljómborðsins míns.  Lengra komumst við ekki saman á framabrautinni. Félagar mínir í Ms. Pac-Man héldu áfram í rokkinu. Í dag eru þeir liðsmenn hljómsveita sem heita Brain Police, Helgi og hljóðfæraleikararnir og Skurk. Fyrst of fremst voru þeir þó liðsmenn Ms. Pac-Man – allavega í mínum huga.

Laugarborg ´87 var hátindur ferilsins. Þar komst ég næst því að upplifa drauminn, að spila á hljómborðið mitt og öðlast frægð. Í reynd var þetta fyrsta og eina skiptið sem við komum fram saman sem tvíeyki. Eftir þetta fór hljómborðið í geymslu og hefur verið þar meira og minna síðan, ef frá eru talin nokkur ár þar sem það var í láni. Ég veit ekki hvað það er en af einhverri ástæðu sá ég þörf fyrir að draga fram hljómborðið mitt síðastliðið haust, eftir 30 ára samveru. Kannski hefur vonin um heimsfrægð alltaf blundað í mér, já eða endurkoma Ms. Pac-Man. Eftir tveggja daga æfingar heima í stofu sá ég að af því verður ekki. Hljóðfærið er hið sama og bjó til fagra tóna í Laugarborg 1987. Hljóðfæraleikarinn hefur breyst. Hann er búinn að gleyma öllum La-Bamba lögunum. Hann kann heldur ekki að lesa nótur. Nú er svo komið að hljómborðinu, sem má muna fífil sinn fegurri, hefur verið úthýst úr öllum geymslum heimilisins og bíður örlaganna. Það safnar ryki í hjónaherberginu með enga von um samstarf við núverandi eiganda nokkru sinni aftur.  Eftir rúmlega 30 ára samleið skilja nú leiðir. Ég óska hér með eftir nýjum eiganda. Einhverjum með drauma um heimsfrægð með Technics SX – K100. Með nóturnar að vopni.

 

Brynjar Karl Óttarsson

Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt

Út er komin bókin Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur. Hildur þreytir hér frumraun sína á ritvellinum.

Í bókinni er rakið lífshlaup Helgu Guðrúnar Sigurðardóttur. Hún fæddist í Teigi í Eyjafjarðarsveit árið 1927. Tvöfaldur móðurmissir, fósturvist og aðskilnaður frá fjölskyldu settu sitt mark á æsku Helgu Guðrúnar. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur.

Konur eru í aðalhlutverki frásagnarinnar sem spannar rétt um hundrað ár. Sagan hefst um aldamótin 1900 í torfbæ í Eyjafirði en lýkur á Akureyri árið 2009. Höfundur dregur upp svipmynd af tíðarandanum, bæjarbragnum á Akureyri og uppvaxtarskilyrðum alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun.

Hugmyndin að bókinni fæddist í upphafi ársins þegar Helga Guðrún vitjaði Hildar í draumi. Hálfum mánuði síðar hóf Hildur að taka viðtöl og viða að sér heimildum. Fyrir bókinni liggja þó fleiri ástæður en einungis draumurinn. Hildi langaði að spegla sig í lífi ömmu sinnar til að öðlast betri skilning á því hvar rætur hennar liggja. Hildur beið ekki boðanna heldur setti sér það markmið að gefa bókina út á hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni hlaut Hildur styrk frá Menningarsjóði Akureyrar.

Bókin kostar 3990 krónur í Eymundsson Akureyri og Eymundsson Austurstræti en 3500 krónur hjá útgefanda. Grenndargralið gefur bókina út.

Hildur Hauksdóttir hefur þetta um bókina að segja:

„Amma mín var af fyrstu kynslóð frjálsra kvenna í þeim skilningi að hún þekkti aldrei annað en réttinn til að kjósa til jafns við karla. Hún var alþýðustúlka á 20. öldinni. Upplifði móðurmissi, fóstur, hernám, lýðveldisstofnun, frið og loks þá mestu uppgangs- og velmegunartíma í sögu landsins. Amma tilheyrði þeim hópi íslenskra kvenna og karla sem komu fótunum undir þessa þjóð. Með þessu kveri vildi ég ljá ömmu rödd og þræða saman svipmyndir úr lífi hennar svo úr yrði einhvers konar heildstæð mynd.“

Sigurvegari í Leitinni að Grenndargralinu 2015

Leitinni að Grenndargralinu lauk föstudagskvöldið 13. nóvember. Það var Kristján Rúnar Kristjánsson úr 10. bekk í Síðuskóla sem fann Gralið þetta árið. Hann er því sigurvegari í Leitinni að Grenndargralinu árið 2015. Þetta er annað árið sem Síðuskóli hampar Gralinu. Guðrún og Lovísa sigruðu fyrir hönd skólans árið 2009.

 

Glæsilegur árangur hjá Kristjáni sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Þeir eru allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þeir öðrum mikil fyrirmynd. Formleg afhending Gralsins fór fram á fullveldisdaginn 1. desember. Við óskum Kristjáni, sem og Síðuskóla, til hamingju með sigurinn.